Sport

Kobe Bryant borgar stúlkunni

Lögfræðingar körfuboltastjörnunnar Kobe Bryant leikmanns Los Angeles Lakers í NBA boltanum náðu í kvöld, að íslenskum tíma, utanréttarsamkomulagi við lögfræðinga stúlkunnar sem kærði hann fyrir nauðgun í júní 2003 en málið vakti heimsathygli eins og skemmst er að minnast. Stúlkan höfðaði einkamál gegn Bryant eftir að málið var látið niður falla fyrir dómstólum í fyrra en það kom til vegna þess að stúlkan neitaði að bera vitni fyrir dómi. Ástæðan fyrir því ku vera sú að dómstóllinn gerði þau mistök að birta gögn um málið á Netinu ásamt nafni stúlkunnar en hún átti að njóta nafnleyndar í fjölmiðlun á meðan á málinu stóð. Hún hefur nú samþykkt að falla frá lögsókninni gegn greiðslu miskabóta sem lögfræðingar Bryant féllust á nú undir kvöldið. Gengið verður frá lausum endum síðar í vikunni hjá lögfræðingum.  Bryant hefur beðið stúlkuna opinberlegrar afsökunar þar sem hann segist hafa staðið í trú um að samræði þeirra hefði verið með hennar samþykki en hann játti því strax að hafa haft samfarir við stúlkuna. "Ég geri mér grein fyrir því núna að hún túlkaði atvikið ekki á sama hátt og ég." sagði Bryant meðal annars og er augljóslega mjög létt því ferill hans hékk á bláþræði þar til fyrir skömmu vegna þessa.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×