Sport

Frábær febrúar Helenu og Hauka

Kvennalið Hauka hefur slegið í gegn í kvennakörfunni í vetur og þá sérstaklega eftir áramót en liðið hefur nú unnið 8 af 11 leikjum sínum á árinu 2005 og einn af sigrinum kom einmitt í bikarúrslitaleiknum gegn Grindavík í Höllinni. Tveir af þessum þremur tapleikjum réðust með sigurkörfu mótherjanna á lokasekúndunum og með 22 stiga sigri í Grindavík í síðustu vikuhafa Haukastúlkur unnið sannfærandi útisigra á liðinum tveimur sem eru fyrir ofan þær í stigatöflunni. Haukar eiga enn möguleika á þriðja sætinu þegar tveir leikir eru eftir en komast þó ekki ofar. Helena Sverrisdóttir hefur farið fyrir sínu liði og átti frábæran febrúarmánuð þar sem hún var meðal annars með þrefalda tvennu að meðaltali í fjórum leikjum, þremur deildarleikjum og bikarúrslitaleiknum. Helena náði þrefaldri tvennu í tveimur þessum leikja, var með 22 stig, 13 stoðsendingar og 10 fráköst í 82-75 sigri á ÍS og 22 stig, 20 fráköst og 12 stoðsendingar í sigrinum í Grindavík en auk þessa náði hún þrefaldri tvennu í undanúrslitaleiknum í Keflavík í lok janúar og hefur því þrisvar á tæpum mánuði náð þessum eftirsótta vitnisburði um fjölhæfni í körfuboltanum. Það er ljóst að Ágúst Björgvinsson er að gera frábæra hluti með hið unga lið Hauka, sem spilar hraðan og skemmtilegan bolta sem sérlega gaman er að horfa á. Með sigrinum í Grindavík tryggði liðið sér endanlega sætið í úrslitakeppninni og varð þar með fyrstu nýliðarnir sem komast þangað síðan Breiðablik varð Íslandsmeistari á sínu fyrsta ári fyrir tíu árum síðan. Tölfræði Helenu í febrúar: Leikir: 4 Sigurleikir: 3 Stig í leik: 19,5 Fráköst í leik:14,0 Stoðsendingar í leik: 10,8 Framlag í leik: 31,3 Þrefaldar tvennur: 2 Tvöfaldar tvennur: 4



Fleiri fréttir

Sjá meira


×