Sport

Helm búinn að bæta stigametið

Joshua Helm, leikmaður KFÍ, hefur vakið mikla athygli í vetur þótt gengi liðsins hafi ekki verið burðugt og fall í 1. deild sé staðreynd. Helm er langstigahæsti leikmaður Intersportdeildarinnar í vetur, hefur skorað 781 stig í 21 leik sem gera 37,2 stig að meðaltali í leik. Til samanburðar má nefna að aðeins 9 leikmenn hafa náð að skora yfir 37 stig í leik í deildinni í vetur og aðeins tveir þeirra ofar en einu sinni en það eru KR-ingarnir Cameron Echols (3) og Aaron Harper (2). Joshua Helm hefur skorað meira en 37 stig í níu leikjum. Helm hefur hreinlega farið hamförum í síðustu leikjum en í Grindavík skorað hann yfir 40 stig fjórða leikinn í röð en hann var með 44 stig gegn ÍR í Seljaskóla, skoraði 48 stig í heimaleikjum gegn bæði KR og Hamar/Selfoss og svo 43 stig í Grindavík í fyrrakvöld. Helm þurfti 25 stig í Grindavík til að bæta stigamet Stevie Johnson í núverandi fyrirkomulagi úrvalsdeildarinnar sem hefur verið við lýði síðan 1996. Stevie "Wonder" skoraði 762 stig í 22 leikjum með Haukum 2002-2003 en Johnson er einnig í fimmta sæti listans með þau 670 stig sem hann skoraði fyrir Þór Akureyri árið á undan. Helm bætti met Johnson í lok þriðja leikhluta, skoraði 18 stig í lokaleikhlutanum og vantar nú aðeins 19 stig til að vera tíundi maðurinn í sögunni til þess að skora yfir 800 stig á einu tímabili. Danny Shouse er sá eini af þeim sem afrekaði slíkt í færri leikjum en Helm (20 leikir og 800 stig tímabilið 1980-81 - 40 stig að meðaltali) en Frank Booker er næstur af hinum eftir að hafa skorað 881 stig í 26 leikjum með Val 1991-92. Auk þess hefur Helm tekið 14,1 frákast að meðaltali í leik og hefur náð tvennum í 19 af 21 leikjum sínum í vetur sem er það langbesta í deildinni. Helm hefur að sjálfsögðu slegið félagsmetið í stigaskorun og vantar nú 14 fráköst í síðasta leiknum gegn Skallagrími til þess að bæta félagsmet James Cason í fráköstum en hann tók 308 fráköst fyrir KFÍ veturinn 1998-99. Hvernig sem fer er ljóst að Joshua Helm hefur sett sitt mark á metabækurnar í íslenska körfuboltanum. Flest stig á einu tímabili í 22 leikja deild:* 781 Joshua Helm KFÍ 2004-05 762 Stevie Johnson, Haukar 2002-03 727 Dwayne Fontana, KFÍ 2000-01 707 Brenton Birmingham, Grindavík 1999-2000 670 Stevie Johnson, Þór Ak. 2001-02 653 Warren Peebles, Val 1997-98 648 Damon Johnson, ÍA 1997-98 641 John Woods, Tindastóli 1998-99 636 Damon Johnson, Keflavík 1998-99 632 Darrell Flake, KR 2002-03 * Tólf lið hafa spilað 22 leikja frá og með tímabilinu 1996-97.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×