Sport

Walker fékk gamla númerið aftur

Antoine Walker, leikmaður Boston Celtics í NBA-körfuboltanum, er kominn með gamla númerið sitt (8) á nýjan leik. Walker, sem hóf ferilinn með Boston-liðinu árið 1996, lék ávallt númer 8 með Celtics en eftir að hann sagði skilið við liðið og fór til Atlanta Hawks eftir ársdvöl hjá Dallas Mavericks, féll númerið í skaut nýliðans Al Jefferson. Walker, sem neyddist til að leika í búningi númer 88, var harðákveðinn í að endurheimta númerið sitt þegar hann samdi við Celtics á ný. "Ég ætla að fá númerið aftur fyrir næsta tímabil. Ég veit ekki hvað það mun kosta," sagði Walker. "Ég ætla að tala við Jefferson sem fyrst því hann gæti verið orðinn montnari eftir tímabilið," bætti Walker við og hló. Nú virðast númeraskiptin hafa átt sér stað því Walker lék í búningi númer 8 þegar Boston tók á móti Los Angeles Lakers í nótt. Celtics hafði betur í leiknum, 104-101, og virtist Walker finna sig vel í sínum gamla búningi. Hann skoraði 16 stig og tók 13 fráköst í leiknum. Kaupverðið á treyjunni fékkst ekki gefið upp.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×