Sport

Hildur með stórleik fyrir Jämtland

Hildur Sigurðardóttir, körfuknattleikskona með sænska liðinu Jämtland, kvaddi áhorfendur á heimavelli sínum með stæl þegar liðið mætti Sallén. Hildur skoraði 22 stig í leiknum og átti stóran þátt í sigri gestgjafanna. Lokatölur urðu 95-69 en Jämtland náði ekki sæti í úrslitakeppninni og leiktíðin því nánast á enda. Eftir að úrslitasætið var úr sögunni ákvað félagið að endurnýja ekki samninginn við Hildi og Dionne Brown, sem var einnig atvinnumaður hjá liðinu. Hildur sagði í samtali við sænska blaðið Länstidningen að hún hefði, ólíkt Brown, ákveðið að leika síðasta leikinn áður en hún héldi á braut. "Mér líkar mjög vel hér og þess vegna vildi ég spila síðasta heimaleikinn," sagði Hildur og bætti því við að hún útilokaði ekki að halda áfram hjá Jämtland. "Eins og er held ég öllu opnu en ég verð fyrst að sjá hvernig liðið verður á næsta ári. Það er alveg mögulegt að ég verði áfram enda líkar mér mjög vel hér." Hasse Widell, þjálfari Jämtland, sagðist vilja halda Hildi í Svíþjóð. "Hún hefur staðið sig frábærlega hér en á næsta tímabili verðum við að fá einn bakvörð til viðbótar til að létta undir með henni. Það er erfitt að spila 40 mínútur í hverjum leik," sagði Widell. Hildur sagðist hafa orðið fyrir vonbrigðum með gengi liðsins. "Við hefðum átt að komast í úrslit með þetta lið," sagði Hildur. "Það fór eitthvað úrskeiðis eftir áramót en við vitum ekki alveg hvað það var." Lokaleikur Jämtland verður gegn 08 Stockholm annað kvöld.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×