Sport

Pétur spáir í spilin í körfunni

Úrslitakeppni Intersportdeildarinnar hefst í kvöld með tveimur leikjum. KR-ingar gera sér ferð í Stykkishólm og leika gegn Snæfelli en í Sláturhúsinu í Keflavík taka deildarmeistarar Keflavíkur á móti Grindvíkingum. Flestir hallast að auðveldum sigri Keflvíkinga í kvöld en til eru þeir sem hafa tröllatrú á því að Grindavík geti stolið sigrinum í kvöld. Fréttablaðið setti sig í samband við Pétur Ingvarsson, þjálfara Hamars/Selfoss, og bað hann um að spá í spilin. "Ég held að heimavöllurinn eigi eftir að reynast Keflvíkingum vel í þessari viðureign. Ég spái því að þetta verði tiltölulega auðveldur sigur fyrir Keflavík," sagði Pétur. "Liðið er mjög vel "rútínerað" og með betri mannskap en Grindavík. Svo telst til tíðinda ef liðið tapar á heimavellinum sem er ansi sterkur. Grindavík dalaði töluvert á tímabili en liðið er búið að eiga ágætis uppsveiflu upp á síðkastið. Ég held að það dugi samt ekki liðinu til sigurs gegn Keflavík. Helgi Jónas Guðfinnsson er að vísu kominn á ný eftir meiðsli en hann skortir sennilega þá leikæfingu sem þarf til þess að skila sínu." Pétur fullyrti að það sama yrði upp á teningnum í Stykkishólmi þar sem viðureign Snæfells og KR fer fram. "Heimavöllurinn mun reynast Snæfellingum vel gegn KR í kvöld. Ég held að það verði mjög erfitt fyrir KR-ingana að fara vestur og vinna því Snæfell er einfaldlega með betri mannskap hvað stöðurnar snertir. Svo er liðið náttúrulega með Hlyn Bæringsson sem getur unnið leiki fyrir Snæfell. KR getur samt ýmislegt en ég er ekki viss um að liðið hafi trú á því. Ég held að Snæfell eigi eftir að vinna þennan leik örugglega," sagði Pétur. Leikur Keflavíkur og Grindavíkur er í beinni útsendingu á Sýn kl. 19.00.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×