Sport

Óvæntur sigur hjá KR

KR-ingar unnu í kvöld óvæntan og dramatískan sigur á Snæfelli í fyrsta leik liðanna í 8-liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik, 89-91.  Leikurinn, sem fram fór á heimavelli Snæfells í Stykkishólmi var í járnum mest allan tímann en heimamenn leiddu með 7 stigum í hálfleik, 53-46. Aaron Harper skoraði sigurkörfu KR með þriggja stiga skoti rúmlega 7 sekúndum fyrir leikslok og breytti þannig stöðunni úr 89-88 heimamönnum í vil í 89-91 fyrir gestina. Hlynur Bæringsson fékk svo gullið tækifæri til að jafna metin fyrir Snæfell þegar um sekúnda lifði af leiknum er brotið var á honum. Fyrra vítaskot Hlyns geigaði hins vegar og því ljóst að hann yrði að klikka á síðara skotinu í þeirri von að liðsfélagar sínir næðu að blaka knettinum ofan í körfuna. Það tókst hins vegar ekki og KR-ingar stóðu uppi sem sigurvegar og leiða einvígið, 1-0. Hjá heimamönnum var Hlynur öflugur að vanda þrátt fyrir að honum tækist ekki að tryggja Snæfellingum framlengingu. Hlynur skoraði 20 stig og tók 10 fráköst, Mike Aimes setti 17 stig, Sigurður Þorvaldsson 16 ásamt því að taka 7 fráköst og Magni Hafsteinsson 13 stig. Aaron Harper átti sannkallaðan stjörnuleik fyrir KR því auk þess að skora sigurkörfuna setti hann 36 stig og gaf 9 stoðsendingar. Cameron Echols var með 17 stig og tók 7 fraköst og Steinar Kaldal skoraði 11 stig.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×