Sport

Herbert kátur með sigur KR

Herbert Arnarson þjálfari KR-inga í körfuknattleik karla var yfir sig ánægður með sigur sinna manna á Snæfelli í fyrsta leik liðanna í úrslitakeppninni í gærkvöldi.  Í samtali við Fréttablaðið sagði Herbert að sigurinn í  Stykkishólmi hafi verið mjög sætur.  "Jú, þetta var rosalegur leikur og gott að ná að sigra í fyrsta leik á útivelli.  Það hefur þó að mínu mati enga úrslitaþýðingu í þessu einvígi að vera með heimavallarréttinn, því leikir þessara liða eru alltaf æsispennandi og úrslitin ráðast á síðustu sekúndunum eins og leikur okkar við þá í deildinni um daginn.  Við töpuðum honum á heimavelli í þrefaldri framlengingu svo að það var ljúft að ná að vinna þennan í Stykkishólmi.  Þessir leikir verða allir svona spennandi á milli þessara liða", sagði Herbert. Við spurðum Herbert út í hetjuskapinn hjá Aaron Harper á lokasekúndunum, en hann kom KR einu stigi yfir þegar um sjö sekúndur voru eftir af leiknum, með ótrúlegri þriggja stiga körfu, en Bandaríkjamaðurinn átti stórleik í liði KR og skoraði 36 stig, gaf 9 stoðsendingar og hitti frábærlega utan af velli. "Jú, Harper var góður.  Við erum með frábæra útlendinga og þetta er það sem við borgum þeim fyrir að gera - svo einfalt er það", sagði Herbert.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×