Sport

NBA í nótt

Nokkrir leikir fóru fram í NBA deildinni í körfuknattleik í nótt. Phoenix Suns náðu að stöðva sigurgöngu Denver Nuggets, sem höfðu unnið átta leiki í röð, 106-101. Steve Nash var atkvæðamestur í liði Phoenix með 25 stig og 11 stoðsendingar. Önnur sigurganga var stöðvuð í nótt þegar Seattle Supersonics lögðu heimamenn í New York Knicks 90-80, þar sem Ray Allen skoraði 23 stig.  Knicks höfðu unnið síðustu sjö heimaleiki sína, en lið Seattle hafði tapað þremur leikjum í röð fyrir leikinn sem er lengsta taphrina liðsins á tímabilinu. Dallas sigraði Minnesota á útivelli þrátt fyrir stórleik frá Kevin Garnett, sem skoraði 24 stig, hirti 13 fráköst og gaf 6 stoðsendingar, en Minnesota liðið er í stórvandræðum þessa dagana.  Flestir bjuggust við að liðið yrði á meðal þeirra bestu í ár, en nú þarf liðið á kraftaverki að halda til að komast í úrslitakeppnina.  Mavericks eru hinsvegar í góðum málum og hefur gengið prýðilega á síðustu vikum, þrátt fyrir meiðsli lykilmanna. Þá eru Houston Rockets á góðri siglingu þessa dagana og lögðu vængbrotið Sacramento liðið í nótt, 111-96.  Tracy McGrady var stigahæstur hjá Houston með 22 stig og 7 stoðsendingar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×