Sport

Slæmt að missa Steinar Kaldal

KR sækir Snæfell heim í hreinum úrslitaleik um áframhaldandi þátttöku í úrslitakeppni Intersportdeildarinnar í körfuknattleik. Einar Bollason spáir í spilin fyrir Vísi. "Ég var alltaf mjög taugastrekktur fyrir leiknum í KR-heimilinu, enda söng í manni endurminningin frá því í fyrra þegar maður sat eins og lamaður og horfði á Grindvíkingina kjöldraga KR-ingana í DHL-höllinni," sagði Einar Bollason. "KR-ingarnir komu reyndar mjög sterkir upp í Grindavík og börðust hetjulega þar, úrslitin réðust bara á síðustu sekúndunum. Ég vonast til að það takist aftur, að KR-ingarnir nái að berja í bumbur og mæta dýrvitlausir til leiks. En ég er hræddur um að það verði ekki nóg. Það er náttúrlega mikið áfall að missa fyrirliðann, Steinar Kaldal. Hann skorar kannski ekki mikið en hann er þeirra foringi inni á vellinum og örugglega einn besti varnarmaður deildarinnar. Það er skarð sem er erfitt að fylla. Ég get lofað mönnum spennandi leik en auðvitað er margt sem mælir með því að Snæfell tapi ekki tveimur heimaleikjum í röð. Ég hallast að því að róðurinn verði erfiður hjá mínum mönnum. Vörnin, sem hefur ekki verið til staðar í vetur, virðist vera mætt til leiks hjá Snæfelli," sagði Einar Bollason.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×