Sport

Snæfell sigurstranglegra

Undanúrslitaviðureignar Snæfells og Fjölnis í úrslitakeppni Úrvalsdeildar karla í körfubolta er beðið með mikilli eftirvæntingu. Nýliðar Fjölnis hafa komið liða mest á óvart í vetur og eru komnir alla leið í undanúrslitin eftir rafmagnaða spennuviðureign við Borgnesinga. Þeirra bíður hið erfiða verkefni að etja kappi við Hópbílabikarmeistara Snæfells, sem er með heimavallarréttinn í einvíginu og hafa á að skipa gríðarlega sterku varnarliði. Eftir að hafa tapað fyrsta leiknum sínum við KR á heimavelli í fyrstu umferðinni, náðu þeir að klára næstu tvo leiki og tryggja sig í undanúrslitin. "Ég held að Snæfell fari áfram úr þessari rimmu. Fjölnismenn eru búnir að sýna það í vetur að þeir eru komnir til þess að vera í Úrvalsdeildinni, en ég held að Snæfell láti ekkert stöðva sig í þessu máli. Mér finnst Snæfellsliðið vera með það gott úrval af skorurum, þeir eru með sjö menn sem geta látið að sér kveða í stigaskoruninni og ég held að það fleyti þeim áfram. Þó að allir tali um varnarleikinn hjá þeim, finnst mér fólk líta fram hjá því hvað þeir eru með mörg vopn sóknarlega. Það er mikið spurningamerki hjá Fjölnisliðinu, eins og reyndar hjá ÍR-ingum í hinu einvíginu, hvort að leikmenn liðsins eru hreinlega ekki orðnir saddir bara. Þeir hafa komið á óvart í vetur og náð lengra en nokkur þorði að vona, svo að það er spurning hvort þeir hafa hungrið í að fara lengra. Ég held að Fjölnir stríði þeim vissulega og auðvitað verða þetta hörkuleikir. Það er ekkert gefið þegar komið er í undanúrslitin í keppninni, en ég held bara að Snæfellsliðið sé of sterkt og að Hólmarar fari áfram í úrslitin. Ég spái Snæfelli sigri í einvíginu 3-1", segir Einar Bollason, sérfræðingur Fréttablaðsins í körfuboltanum, sem er í skýjunum yfir úrslitakeppninni í ár og segir hana þá skemmtilegustu sem hann hefur orðið vitni að til þessa.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×