Sport

Stúdínur jöfnuðu metin

Stúdínur tryggðu sér oddaleik gegn Keflavík í undanúrslitum úrslitakeppni kvenna í körfubolta með 21 stigs sigri, 75-54, í öðrum leik liðanna í Kennaraháskólanum í gær. Það var ljóst frá byrjun að ÍS var ekki á leiðinni í sumarfrí, liðið vann fyrsta leikhluta með 18 stigum og hélt Íslandsmeisturunum í aðeins þremur stigum fyrstu 10 mínúturnar. Keflavíkurliðið átti nokkur áhlaup það sem eftir lifði leiks en munurinn var aldrei minni en níu stig og endaði með sannfærandi 21 stigs sigri. Signý Hermannsdóttir hélt áfram yfirburðum sínum inn í teig hjá ÍS, skoraði 23 stig, tók 16 fráköst, varði 8 skot og gaf 6 stoðsendingar en Signý hefur meðal annars varið 19 skot í fyrstu tveimur leikjum einvígisins. Þórunn Bjarnadóttir átti líka mjög góðan leik, skoraði 16 stig og tók 10 fráköst og Alda Leif Jónsdóttir var traust með 15 stig. Þá áttu þær Erna Rún Magnúsdóttir, Hafdís Helgadóttir og Stella Rún Kristjándóttir allar góða spretti. Angel Mason skoraði reyndar aðeins 5 stig fyrir ÍS en hún hélt Birnu Valgarðsdóttur stigalausri og frákastalausri í leiknum. Hjá Keflavík var Alex Stewart yfirburðarmanneskja með 24 stig, 11 fráköst og 5 stoðsendingar og Anna María Sveinsdóttir var líkust sjálfri sér með 12 stig og 9 fráköst en aðrar voru nánast óþekkjanlegar. Þetta var þvi efiður dagur fyrir Sverri Þór Sverrisson, þjálfara liðsins, sem var nýkominn úr Keflavík þar sem að hann sem leikmaður tapaði fyrsta leik undanúrslitanna gegn ÍR.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×