Sport

Gera allt til þess að tækla þetta

Mikla athygli vakti þegar leikmönnum úr körfuknattleiksliði ÍR var hótað með SMS-sendingum meðan á undanúrslitunum í Intersportdeildinni stóð þar sem liðið átti í höggi við Keflavík. Þetta er annað árið í röð þar sem stuðningsmenn úr röðum Keflvíkinga eru staðnir að slíkum sendingum en Hlynur Bæringsson, leikmaður Snæfells, mátti þola hótanir með sama hætti á síðasta ári þegar Snæfell mætti Keflavík í úrslitum. "Við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að tækla þetta mál," sagði Hermann Helgason, formaður körfuknattleiksdeildar Keflavíkur. "Þetta viljum við ekki sjá í körfuboltanum, hvort sem það er tengt okkar liði eða einhvers annars. Við höfum orðið okkur úti um þessi símanúmer sem hringt var úr til leikmanna ÍR-liðsins en því miður voru engin nöfn skráð þar á bak við." Hermann segir athæfið setja dökkan blett á íþróttina og að stjórn Keflavíkur harmaði að þetta hafi átt sér stað. "Þetta er því miður alþekkt þegar menn eru komnir í úrslitin og líklegt að þarna séu á ferðinni aðilar sem að sækja ekki leiki. Það þarf ekkert endilega að vera að þetta séu Keflvíkingar heldur," sagði Hermann sem fullyrti að þetta væri ekkert nýtt af nálinni. "Menn á borð við Teit Örlygsson og Jón Kr. Gíslason þurftu að þola símhringingar á nóttu sem degi þegar Keflavík og Njarðvík mættust í úrslitum hér áður. Svona mál á náttúrlega að útkljá á vellinum en ekki með svona leiðindum. Við stöndum ekki fyrir svona hlutum," sagði Hermann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×