Sport

Keflavík dró kæruna til baka

Mikið hefur verið rætt um mistök sem áttu sér stað á ritaraborði á leik Snæfells og Keflavíkur í lokaúrslitum Intersportdeildarinnar í körfuknattleik. Leiknum lyktaði með sigri Snæfells, 97-93, en Keflvíkingar vildu meina að löglega skoruð karfa hefði verið tekin af þeim. Stjórn körfuknattleiksdeildar Keflavíkur ákvað að kæra atvikið til KKÍ en dró síðan kæruna til baka. "Okkur fannst það ekki körfuboltanum til góðs að halda kærunni til streitu," sagði Birgir Már Bragason, varaformaður körfuknattleiksdeildar Keflavíkur. "Úrslitakeppnin hefði getað frestast um einhverjar vikur. Þetta var mikið rætt í gær og við ákváðum að bera hag körfuboltans fyrir brjósti, hætta við kæruna, klára þessa keppni og vonast til þess að bragabót verði gerð þarna á," bætti Birgir við. Högni Friðrik Högnason var ritari á leiknum fræga og sagði í samtali við Vísi að sér þættu mistökin leiðinleg. "Ég skil bara ekki hvernig ég fór að því að klikka á því að sjá þessa körfu. Þetta er bara klúður," sagði Högni. "Að við skulum báðir missa af þessu þykir mér alveg furðulegt. Eftirlitsdómarinn átti að vera okkur til halds og trausts en hann missir af þessu líka, karlanginn. Hann var alveg jafn hissa á þessu og ég. Þetta er mjög leiðinlegt mál og náttúrulega ekki viljandi gert. Það er virðingarvert hjá Keflavík að draga kæruna til baka og vonandi kemur svona lagað ekki fyrir aftur." Staðan í einvíginu er 1-1 en næsti leikur fer fram annað kvöld í Sláturhúsinu í Keflavík.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×