Sport

Þrjú erlend lið með áhuga

Körfuboltakappinn Hlynur Bæringsson, sem hefur verið lykilmaður í frábæru gengi Snæfells undanfarin tvö ár í Intersportdeildinni, sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að hann hefði í hyggju að reyna að komast að hjá erlendum liðum á næsta tímabili. Hlynur var valinn besti leikmaður deildarinnar í fyrra og fylgdi því eftir með frábæru tímabili í ár. Hann þurfti hins vegar að horfa á eftir Íslandsmeistaratitlinum bæði árin til Keflavíkur. Hlynur sagði að hann vissi af þremur liðum sem hefðu sýnt honum áhuga. "Ég veit að spænskt úrvalsdeildarlið hefur áhuga á því að fá mig og lána mig til liðs sem það á í neðri deildunum. Ég þyrfti því að sanna mig sem væri hið besta mál. Síðan veit ég líka af liðum í Hollandi og Þýskalandi en ég á eftir að skoða það nánar. Deildirnar í Evrópu eru enn í fullum gangi þannig að þetta skýrist ekki strax." Hlynur sagði það lengi hafa verið draum sinn að hafa atvinnu að því að spila körfubolta enda væri lítill möguleiki á því á Íslandi. "Ég vil æfa tvisvar á dag til að verða betri leikmaður og þá þýðir lítið annað en að fara eitthvert út. Það er ekki hægt að æfa tvisvar á dag hér landi, þykjast vera atvinnumaður og eiga varla fyrir mat." Hlynur sagði þetta líka ágætis leið til að sleppa við Keflavík. "Ég er orðinn þreyttur á þeim því að við töpum alltaf fyrir þeim," sagði Hlynur. Aðspurður hvort hann ætti ekki bara að ganga til liðs við Keflavík fyrst hann gæti ekki unnið liðið sagði hann að sér yrði líklega slátrað í Stykkishólmi ef hann færi þangað. "Það er betra að fara út. Keflvíkingarnir elta mann varla þangað," spurði hann og hló



Fleiri fréttir

Sjá meira


×