Sport

Verkfalli afstýrt í NBA

Nordic Photos/Getty Images
Þær gleðifréttir bárust úr NBA deildinni nú í kvöld að samkomulag hefur náðst í kjarasamningum milli fulltrúa leikmanna og deildarinnar, en þar með er ljóst að ekkert verður af verkfalli sem virtist óumflýjanlegt fyrir nokkrum dögum þegar hvorki gekk né rak í viðræðunum. Margir varpa því öndinni léttar eftir að samningar náðust í kvöld, enda var enginn tilbúinn að lenda í sömu hremmingum og árið 1999, þegar keppnistímabilið í NBA styttist um 30 leiki í kjölfar verkfalls. Deldin missti nokkuð áhorf og virðingu á þeim tíma og var harðlega gagnrýnd fyrir að ná ekki að ljúka málinu á tilsettum tíma. Þá hefur atvinnumannadeildin í íshokkí, NHL, verið í svipuðu verkfalli lengi og margir vilja meina að sú íþrótt muni aldrei ná sér á strik aftur í kjölfarið. Nokkrar breytingar munu líta dagsins ljós með nýju samningunum, þar sem hámarkssamningar við leikmenn verða styttir úr sjö árum í sex, lágmarksaldur leikmanna í deildinni verður hækkaður í 19 ár og lágmarkslaun verða hækkuð nokkuð, launaþak liðanna verður hækkað um tæp 3%, lyfjaprófum verður fjölgað og hámarksfjöldi virkra leikmanna í hópi hvers liðs hækkaður úr tólf í fjórtán, svo eitthvað sé nefnt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×