Sport

Eins og að ferðast með Elvis

"Það hefði auðvitað verið betra að ná að vinna þennan leik, en ég er samt mjög ánægður með leik liðsins í dag," sagði Sigurður Ingimundarson, þjálfari íslenska liðsins eftir leikinn í gær. Magnús Þór Gunnarsson var stigahæstur íslenska liðsins með 21 stig, en Hlynur Bæringsson kom næstur með 18 stig og hirti 11 fráköst. Eftir að liðið tapaði illa fyrir Kínverjum í fyrri leik liðanna á dögunum, sagði Sigður að allt annað hefði verið að sjá til strákanna í gær. "Vörnin gekk miklu betur hjá okkur í gær og baráttan meiri, auk þess sem langskotin voru að detta hjá okkur," sagði Sigurður og bætti við að liðið væri komið á gott skrið fyrir leikinn mikilvæga gegn Dönum í Keflavík á laugardaginn. "Ég hef engar áhyggjur af leiknum við Dani ef við spilum í líkingu við það sem við vorum að gera hérna í dag, því þetta kínverska lið er auðvitað gríðarlega sterkt. Við misstum Hlyn og Friðrik báða út af með fimm villur í leiknum og máttum ekki eiga neina slæma kafla, því þá var okkur refsað strax," sagði Sigurður, en íslenska liðið var með forystu 24-22 eftir fyrsta leikhlutann, en eftir það tóku Kínverjar leikinn í sínar hendur og unnu eins og áður sagði með 16 stiga mun. "Ég get ekki annað en hrósað öllum strákunum fyrir frammistöðuna í dag og þetta er búið að vera frábært ferðalag hérna út. Fólk hérna er mjög hrifið af körfubolta og hrósaði þeim Hlyni og Magga fyrir leik sinn í dag. Stemningin er ólýsanleg og það er bara eins og við séum að túra með sjálfum Elvis hérna, þvílík eru lætin í kring um Yao Ming," sagði Sigurður, sem ásamt strákunum í landsliðinu fékk lögreglu- og herfylgd í burtu frá höllinni þar sem leikurinn var spilaður.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×