Sport

Ming launahæstur í Kína

Kínverski risinn Yao Ming, sem leikur með Houston Rockets í NBA deildinni í körfubolta, er launahæstur fræga fólksins í Kína samkvæmt Forbes blaðinu þar í landi. Ming skrifaði nú fyrir skömmu undir nýjan samning við Texasliðið, sem færir honum um 75 milljónir dollara í laun fyrir næstu fimm ár. Ming er á síðasta ári nýliðasamnings síns í ár, sem mun færa honum um fimm og hálfa milljón dollara í árslaun, en á næsta ári hækka laun hans verulega þegar nýi samningurinn tekur gildi. Þó Ming hafi verið á tiltölulega lágum launum í NBA á árinu 2004, voru heildartekjur hans að mati Forbes þó á nítjándu milljón dollara þegar allt var talið. Yao Ming er gríðarlega vinsæll í heimalandi sínu, eins og leikmenn og þjálfarar íslenska landsliðsins fengu að kynnast þegar þeir spiluðu æfingaleiki við Ming og félaga ytra á dögunum, en þeir líktu fárinu í kring um leikmanninn við að vera á ferð með Elvis sjálfum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×