Sport

Bryant og Jackson hefja störf

Lítið hefur heyrst í Kobe Bryant síðan Phil Jackson tók við liði Los Angeles Lakers í vor, en í gær tjáði hann sig í fyrsta sinn opinberlega um ráðningu Jackson og framtíðaráform liðsins. Bryant var frekar þurr á manninn í viðtalinu og sagði samband sitt við Jackson á faglegum nótum. Phil Jackson gerði lið Los Angeles Lakers að þreföldum meisturum í byrjun áratugarins, en þegar hann hætti með liðið eftir tímabilið 2004, lét hann ýmis vel valin orð falla um Kobe Bryant í bók sem hann gaf út og bar heitið "Síðasta tímabilið". Þar sagði hann að Kobe Bryant væri illþjálfanlegur og sjálfselskur eiginhagsmunaseggur og í kjölfarið urðu litlir kærleikar þeirra á milli. Sú tíðindi að Jackson tæki aftur við Lakers komu því eins og skrattinn úr sauðaleggnum þegar þau voru tilkynnt fyrir réttum fimm mánuðum síðan, en Bryant tjáði sig lítið um samband sitt við Jackson í viðtalinu í gær. "Við erum báðir mjög ákveðnir í að sigra og erum mjög einbeittir þegar kemur að því að ná árangri með þetta lið," sagði hann, en neitaði að tjá sig frekar um samstarfið við Jackson. Bryant hefur nú stundað þrotlausar æfingar í allt sumar, sem er hið fyrsta í mörg ár þar sem hann fær frí að einhverju leiti, því eins og allir vita komst Lakers-liðið ekki í úrslitakeppnina á síðasta tímabili. "Ég hef verið að vinna í að styrkja mig og bæta mig á öllum sviðum leiksins. Það mun aðeins gera mér gott að fá einu sinni svona gott frí," sagði Bryant, sem hefur stundað að vakna klukkan fjögur á morgnana til að fara út að hlaupa.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×