Sport

Frakkar í undanúrslitin á EM

Frakkar eru heldur betur í stuði í Evrópukeppni landsliða í körfuknattleik, sem fram fer í Serbíu um þessar mundir. Eftir að hafa slegið heimamenn nokkuð óvænt út úr keppninni í fyrrakvöld, náðu þeir að leggja núverandi meistara Litháen að velli í kvöld, 63-47 og tryggja sér sæti í undanúrslitum mótsins. Það var frábær varnarleikur Frakka sem skóp sigurinn eins og tölurnar bera með sér, en þeir héldu frábæru liði Litháa í aðeins 16 stigum í fyrri hálfleiknum. Boris Diaw, leikmaður Atlanta Hawks, hefur verið einn besti maður mótsins til þessa og hann var atkvæðamestur í liði Frakka með 18 stig, 11 fráköst og þrjár stoðsendingar. Tony Parker, leikmaður San Antonio Spurs, byrjaði þennan leik á varamannabekk franska liðsins líkt og þann síðasta, en það var ekki síst góður sprettur frá honum sem gerði út um leikinn. Frakkar hefndu því ófaranna frá því 2003, því þá féllu þeir úr keppni fyrir Litháum í undanúrslitum. Franska liðið hefur aldrei orðið Evrópumeistari, en besti árangur liðsins á mótinu var árið 1949, þegar liðið hreppti silfurverðlaun á mótinu. Frakkar mæta því Grikkjum í undanúrslitum mótsins á laugardaginn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×