Sport

Frábær endasprettur KRinga

KRingar sigruðu Fjölni með 96 stigum gegn 69 í Reykjavíkurmótinu í körfuknattleik í Grafarvogi í kvöld. Endasprettur KRinga í leiknum var hreint út sagt ótrúlegur, því Fjölnir hafði yfir í hálfleik, 39-38. Þegar aðeins sex mínútur voru eftir af leiknum var staðan 65-67 fyrir KR, en þá breyttu þeir yfir í svæðisvörn og hreinlega keyrðu yfir lánlausa heimamenn, sem fundu aldrei svar við áhlaupi KR og skoruðu aðeins 4 stig gegn 29 stigum gestanna það sem eftir lifði leiks. Ashley Champion var stigahæstur í liði KR með 19 stig, Níels Þór Dungal átti frábæran leik og skoraði 18 stig, hirti 11 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Þá var Brynjar Þór Björnsson ekki síðri og skoraði 15 stig og hirti 6 fráköst og þeir Skarphéðinn Ingason og Pálmi Freyr Sigurgeirsson skoruðu 11 stig hvor. Hjá Fjölni var Nemanja Sovic atkvæðamestur með 19 stig og 10 fráköst, Jason Clark skoraði 16 stig, Magnús Pálsson 10, Lárus Jónsson 9 og Hörður Axel Sveinsson skoraði 9 stig og átti 5 stoðsendingar. Fjölnir hefði nánast geta tryggt sér Reykjavíkurmeistaratitilinn með sigri í kvöld, því liðin voru bæði taplaus til þessa í keppninni, en nú eru það KRingar sem standa með pálmann í höndunum. Keppninni lýkur eftir viku.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×