Sport

Tvö mörk hjá Gunnari Heiðari í dag

Gunnar Heiðar Þorvaldsson heldur áfram að fara hamförum í sænska fótboltanum en hann skoraði tvö mörk fyrir Halmstad í dag sem valtaði fyrir botnlið sænsku úrvalsdeildarinnar, Assyriska, 5-0. Fyrra markið skoraði Gunnar á 31. mínútu þegar hann kom sínum mönnum í 1-0 en seinna markið kom á 67. mínútu og var lokamark leiksins. Með sigrinum kom Halmstad sér í þægilega fjarlægð frá botnsvæði deildarinnar en eiga þó ennþá fræðilega möguleika á að þurfa í umspil um að halda sæti sínu í deildinni. Gunnar er nú einn markahæstur í deildinni með 16 mörk þegar liðið á aðeins einn leik eftir af mótinu. Næstur á eftir Gunnari í markaskorun í Svíþjóð kemur Afonso Alves hjá Malmö með 14 mörk, Hasse Berggren hjá Elfsborg kemur þriðji með 13 mörk og Ailton hjá Örgryte er fjórði með 12 mörk. Óvænt úrslit urðu í sænsku deildinni í dag þegar Malmö sem er í 3. sæti tapaði fyrir Gefle sem með sigrinum kom sér af fallsvæði í deildinni. Þá gerðu Häcken og Kalmar 1-1 jafntefli en Kalmar er í 4. sæti deildarinnar á meðan Häcken er í 9. sæti. Djurgården, lið Kára Árnasonar og Sölva Ottesen stendur best að vígi þegar 2 umferðum er ólokið og er efst í deildinni með 49 stig. Gautaborg kemur næst með 46 stig en aðeins þessi tvö lið eiga möguleika á að hampa sænska meistaratitlinum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×