Íslenski boltinn

Bindur miklar vonir við íslenska knattspyrnumenn

Bruce Grobbelaar
Bruce Grobbelaar NordicPhotos/GettyImages

Einn litríkasti knattspyrnumarkvörður heims, Bruce Grobbelaar segir að Ísland verði á meðal sterkustu knattspyrnuþjóða innan tíu ára. Grobbelar dúkkaði óvænt upp á knattspyrnumóti í Egilshöll um síðustu helgi.

Grobbelaar gerði garðinn frægan með Liverpool á níunda áratug síðustu aldar og vann hug og hjörtu almennings með fjörugri framkomu á knattspyrnuvellinum. Hann kom hingað til lands fyrir tilstuðlan knattspyrnuráðs Reykjavíkur en bandarísk ferðaskrifstofa, Travel and play hefur flutt hingað til lands áhugafólk um fótolta undanfarin þrjú ár.

Að þessu sinni kom hingað 80 manna hópur frá Bandaríkjunum í þeim tilgangi að leika gegn þekktum knattspyrnuköppum á fótboltamóti Ian Rush sem til stóð að halda í síðustu viku. Ekkert varð hins vegar af því að Rush kæmi til landsins og var því brugðið á það ráð að hringja í Grobbelaar sem þáði boðið með eins dags fyrirvara án þess að hugsa sig tvisvar um.

Jónas Sigurðsson hjá knattspyrnuráði Reykjavíkur segir að mjög góður rómur hafi verið gerður að þessum ferðum Travel and play og stendur til að gera knattspyrnumót af þessu tagi hér á landi að árlegum viðburði ferðaskrifstofunnar.

Fjórtán lið öttu kappi í Egilshöllinni á fstudagskvöldið og lék Grobbelar með þeim öllum. Það kom honum á óvart hversu glæsileg knattspyrnuaðstaðan er hér á landi. Hann hafði einnig á orði að hér væri góður ungviður í boltanum og Ísland ætti innan tíu ára að verða á meðal sterkari knattspyrnuþjóða.

Hans Steinar Bjarnason greindi frá þessu í íþróttafréttum á Stöð 2 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×