Fótbolti

Það vilja allir vinna okkur

Ásgeir Gunnar fagnar markinu með Frey Bjarnasyni, sem líst greinilega ekkert á að fá félaga sinn í fangið.
Ásgeir Gunnar fagnar markinu með Frey Bjarnasyni, sem líst greinilega ekkert á að fá félaga sinn í fangið. fréttablaðið/daníel

Ásgeir Gunnar Ásgeirsson starfar sem sölumaður hjá Góu-Lindu í sumar en stundar þar að auki tannlæknanám. „Það er kannski smá kaldhæðni í því að vera að selja nammi og vera svo í tannlækningum,“ sagði Ásgeir í léttum tón en hann skoraði fyrra mark FH í 2-0 sigrinum á KR.



„Mér fannst þetta verðskuldaður sigur. Við vissum að þeir ætluðu að selja sig dýrt en væru líka brothættir. Við urðum svolítið værukærir eftir að við komumst yfir og seinni hálfleikur var frekar bragðdaufur. Hann var frekar þægilegur, mér fannst þeir ekki vera að gera neitt,“ sagði Ásgeir.



Margir einblína á KR og stöðu þess þegar deildin er skoðuð og þá gleymist oft að hampa Íslandsmeisturunum, sem hafa spilað frábærlega. „Það tekur bara pressuna af okkur, ég held að það sé bara fínt. Það eru allir sem vilja vinna okkur. Menn koma ákveðnari til leiks gegn okkur eins og hefur verið með KR í gegnum árin,“ sagði Ásgeir.



Hlutverk þessa frábæra miðjumanns vill oft gleymast. Ásgeir er máttarstólpi í FH-liðinu en hefur ekki alltaf verið í sviðsljósinu. Ásgeir er vitanlega ánægður með tímabilið hjá meisturunum fram að þessu. „Mórallinn er frábær og sjálfstraustið er líka gott eins og sést í leikjunum,“ sagði Ásgeir.



Hann meiddist á hné í janúar og missti af öllu undirbúningstímabilinu. „Þetta eru álagsmeiðsli í hnénu. Ég finn alltaf fyrir þessu en læt þetta ekki hafa nein áhrif á minn leik. Þetta jafnar sig líklega ekki alveg meðan maður þjösnast á þessu,“ sagði Ásgeir Gunnar Ásgeirsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×