Fótbolti

Þeir mega ekki skora

Helgi Sigurðsson fylgist með baráttu í leik Vals og Keflavíkur fyrr í sumar.
Helgi Sigurðsson fylgist með baráttu í leik Vals og Keflavíkur fyrr í sumar. MYND/Daníel

Valur mætir írska liðinu Cork City í fyrstu umferð Inter-Toto-keppninnar á Laugardalsvelli klukkan 20 í kvöld. Cork endaði í fjórða sæti úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili.

„Evrópukeppnin er kærkomið krydd í tilveruna og skemmtilegur bónus fyrir okkur. Það er alltaf gaman að keppa við erlend lið og þetta er það sem félögin stefna að hér heima. Við ætlum okkur að sjálfsögðu að komast áfram í keppninni,“ sagði Helgi Sigurðsson, framherji Vals í gær.

Helgi sagði að Willum Þór Þórsson, þjálfari Vals, hefði skoðað Cork í síðustu viku.

„Þetta verður erfiður leikur. Það er lykilatriði að ná góðum úrslitum á heimavelli og þeir mega alls ekki skora á okkur hér. Þetta er atvinnumannalið og við þurfum að hafa okkur alla við en við teljum okkur eiga góða möguleika á að komast áfram,“ sagði Helgi.

„Þetta lið væri í góðum úrvalsdeildarklassa hér heima og myndi sóma sér vel í toppbaráttunni er mér sagt. Við förum auðvitað inn í leikinn til að vinna hann og til þess þurfum við að sækja,“ sagði Helgi.

Síðari leikurinn fer fram á sterkum heimavelli Cork 30. júní en á honum tapaði liðið ekki leik á síðasta tímabili. Sigurvegarinn úr þessari rimmu mætir að öllum líkingum Hammarby, liði Gunnars Þórs Gunnarssonar og Heiðars Geirs Júlíussonar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×