Íslenski boltinn

Tvennan er í augsýn hjá FH-ingum

2-1 Tryggvi Guðmundsson sést hér skora annað mark FH í leiknum og fagna því með Guðmundi Sævarssyni.
2-1 Tryggvi Guðmundsson sést hér skora annað mark FH í leiknum og fagna því með Guðmundi Sævarssyni. Vilhelm

Íslandsmeistarar FH tóku stórt skref í átt að tvennunni sem þeir hafa elt undanfarin ár þegar þeir lögðu Breiðablik í fyrri undan­úrslitaleik VISA-bikarsins. Jafnt var eftir venjulegan leiktíma, 1-1, en FH-ingar yfirspiluðu Blika í framlengingunni, skoruðu tvö mörk og hefðu hæglega getað bætt við fleiri mörkum. FH er því búið að ná langþráðu markmiði, að komast í úrslit bikarsins, þar sem liðið mætir annað hvort Fylki eða Fjölni en þau mætast í kvöld.

FH-ingar mættu mjög beittir til leiks og sóttu af miklu kappi. Sóknar­lína FH-inga var einstak­lega vinnusöm og framlínumenn Hafnfirðinga héldu varnar­mönnum Blika við efnið. Sérstak­lega var Matthías Guðmundsson beittur framan af en gaman var að fylgjast með einvígi hans og Arnórs Aðalsteinssonar.

Ekki tókst liðunum að skora í fyrri hálfleik en aðeins sjö mínútur voru liðnar af síðari hálfleiknum þegar Ásgeir Gunnar Ásgeirsson nýtti sér skelfileg mistök Nenads Petrovic til fullnustu og þrumaði boltanum í netið. FH-ingar héldu áfram að þjarma að Blikum, áttu margar stórskemmtilegar sóknir en Casper Jacobsen átti sann­kallaðan stórleik og hann bjargaði Blikum hvað eftir annað.

Kópavogsbúar gáfust ekki upp en þeir áttu nokkrar hættulegar skyndisóknar þar sem Gunnar Örn Jónsson og Prince Rajcomar fóru fremstir í flokki. Prince jafnaði fyrir Blika á 65. mínútu þegar skot Árna Gunnarssonar endaði í fótunum á honum. Prince lagði boltann fyrir sig og skoraði auðveldlega.

Þrátt fyrir fjölda færa hjá báðum liðum á síðustu tíu mínútunum fór boltinn ekki inn og því varð að framlengja. Það er skemmst frá því að segja að FH-ingar höfðu yfirburði í framlengingunni og Blikar virtust gjörsamlega bensín­lausir. Sérstaklega sat miðjan eftir en sóknina vantaði sárlega meiri stuðning frá miðjunni í leiknum. FH hefði getað skorað fjölda marka en létu tvö nægja. Fyrst skoraði Tryggvi Guðmundsson eftir þegar hann hirti frákast í teignum en Guðmann Þórisson hefði átt að vera búinn að hreinsa. Tryggvi lagði svo upp mark fyrir Atla Guðnason á lokamínútu leiksins. 3-1 sigur sem var fyllilega verðskuldaður.

„Ég er alltaf stressaður á hliðarlínunni. Það er það góða við mig. Þegar ég hætti að vera stressaður þá er ég hættur í fótbolta,“ sagði kampakátur þjálfari FH, Ólafur Jóhannesson, en hann fór mikinn á hliðarlínunni. „Við áttum að klára leikinn í venjulegum leiktíma,“ sagði Ólafur, sem var gríðarlega sáttur við framlenginguna.

„Þegar allir eru þreyttir skiptir knatt­spyrnu­leg geta máli og hún er meiri í FH-liðinu en í Blikaliðinu.“

Ólafur Kristjánsson, þjálfari Blika, var eðlilega þungur á brún eftir leikinn. „Maður er tómur. FH-ingarnir voru betri framan af en eftir jöfnunarmarkið komum við inn í leikinn. Við vorum svolítið bensín­lausir í fram­lengingunni. Það sem situr samt eftir í lokin er hversu ólíkir sjálfum okkur við vorum í leiknum, þá er ég að tala um slæmar sendingar og allt stöðumat.“

Ólafur vildi ekkert tjá sig um dómgæsluna en það mátti sjá á látbragði hans að hann vildi fá víti í framlengingunni. „Ég vil samt segja að FH er vel að sigrinum komið og ég óska þeim til hamingju.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×