Fótbolti

KSÍ: Jafnar greiðslur til karla og kvenna

Mynd/Valli
Stjórn knattspyrnusambands Íslands ákvað á stjórnarfundi í síðustu viku að jafna dagpeningagreiðslur til karla og kvennalandsliðanna auk þess sem kvennalandsliðinu var heitinn árangurstengdur aukastyrkur.

Ójöfnuður í greiðslum til landsliðanna hefur verið milli tannanna á almenningi í talsverðan tíma og hefur KSÍ nú ákveðið að taka á því máli. Héðan í frá fá því bæði karlarnir og konurnar fimm þúsund krónur fyrir hvern dag sem þau eru á vegum landsliðsins. Einnig var ákveðið á fundinum að heita stúlkunum 10 milljónir króna takist þeim að tryggja sér þátttökurétt í úrslitakeppni EM í Finnlandi 2009.

Það mun verða svokallaður afreksstyrkur en komist stúlkurnar á EM skiptast 10 milljónirnar milli þeirra leikmanna sem taka þátt í riðlakeppninni. Þá þurfa stúlkurnar að komast upp úr undanriðli sínum fyrir EM en stúlkurnar hefja keppni í sínum riðli í apríl þar sem þær mæta Frökkum, Grikkjum, Serbum og Slóvenum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×