Fótbolti

Grindavík og Fjölnir upp

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Davíð Þór Rúnarsson og félagar í Fjölni fögnuðu Landsbankadeildarsætinu með stuðningsmönnum sínum.
Davíð Þór Rúnarsson og félagar í Fjölni fögnuðu Landsbankadeildarsætinu með stuðningsmönnum sínum. Mynd/E. Stefán

Grindavík og Fjölnir tryggðu sér í dag sæti í úrvalsdeild karla næsta tímabil.

Grindavík vann Reyni, Sandgerði, á heimavelli með sex mörkum gegn engu og tryggðu sér þannig bæði toppsæti deildarinnar og úrvalsdeildarsætið með stæl.

Ivan Firer skoraði tvö mörk fyrir Grindavík, Paul McShane, Marinko Skaricic, Jósef Kristinn Jósefsson og Jóhann Helgason eitt hver.

Fjölnir vann Þór með tveimur mörkum gegn engu og dugði þeim í dag sigurinn, óháð úrslitum annarra leikja.

Gunnar Már Guðmundsson kom Fjölni snemma yfir og Atli Viðar Björnsson bætti við öðru í síðari hálfleik.

Þróttarar hefðu einnig getað tryggt sér sæti í efstu deild með sigri á ÍBV á Valbjarnarvelli.

En Eyjamenn hafa haldið í vonina undanfarnar umferðir og eiga enn möguleika á sæti í úrvalsdeild eftir 2-1 sigur á Þrótti.

Páll Hjarðar og Ian Jeffs skoruðu mörk Eyjamanna í fyrri hálfleik en Hjörtur Hjartarson minnkaði muninn með skallamarki sem kom eftir hornspyrnu á lokamínútum leiksins.

Úrslitin í Grindavík þýða að Reynismenn eru svo gott sem fallnir. Þeir þyrftu að vinna Þrótt í lokaumferðinni með að minnsta kosti fimm marka mun og um leið þyrfti KA að tapa Þór norðan heiða.

KA vann mikilvægan sigur á Leikni í dag og bjargaði sér þar með nánast frá falli.

Víkingur Ólafsvík og Stjarnan gerðu markalaust jafntefli og eru örugg með sæti sín sem og Njarðvík sem van 3-0 sigur á Fjarðabyggð.

Þór og Leiknir sigla sömuleiðis lygnan sjó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×