Íslenski boltinn

Hjörtur: Líklegt að ég hætti

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hjörtur fagnar með liðsfélögum sínum.
Hjörtur fagnar með liðsfélögum sínum. Mynd/E. Stefán

Hjörtur Hjartarson, markakóngur 1. deildarinnar, segir líklegt að hann hafi spilað sinn síðasta leik í dag.

Hjörtur skoraði átján mörk í 21 leik með Þrótti í sumar. Í dag skoraði hann eitt mark í 4-0 sigri Þróttara á Reyni í Sandgerði en með sigrinum tryggði liðið sér sæti í efstu deild.

„Framhaldið er alveg óráðið eins og er,“ sagði Hjörtur við Vísi eftir leik. Hann réð sig í sumar sem íþróttafréttaman á Ríkisútvarpinu og fer það starf oft illa saman við fótboltann.

„Eins og staðan er núna myndi ég segja að það væru minni líkur en meiri á því að ég haldi áfram. Það gæti orðið erfitt að sinna báðu. En auðvitað vil ég halda áfram með Þrótturum en þetta var líklega síðasti leikur minn í dag. Ég vil þó ekki útiloka neitt enn.“

Hann segir að líkaminn sé í fínu formi og tilbúinn í frekari átök. „Það vantar kannski aðeins upp á formið en það verður hægt að vinna í því í vetur. Þó að ég sé orðinn 33 ára gamall tel ég að ég eigi tvö eða þrjú góð ár eftir. Það væri grátlegt ef maður þyrfti að hætta þessu núna.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×