Íslenski boltinn

Geir: Árangurinn er ástæðan

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ.
Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ. Mynd/E. Stefán

Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, segir að ástæðan fyrir því að Eyjólfur Sverrisson hætti nú sem landsliðsþjálfari sé fyrst og fremst árangur liðsins undir hans stjórn.

Stjórn KSÍ ákvað í dag að endurnýja ekki samning Eyjólfs sem rennur út á miðvikudaginn kemur. Geir hefur hins vegar alltaf sagt að Eyjólfur klári núverandi undankeppni sem lýkur ekki fyrr en 21. nóvember næstkomandi.

„Ég veit að ég talaði um að hann myndi klára keppnina," sagði Geir við Vísi. „En þegar til kom var bara um tvo kosti að ræða. Annað hvort að hann hætti núna eða fengi samning út næstu keppni. Það var ekki vilji til þess og var einhugur innan stjórnar KSÍ um þessa ákvörðun."

Vísir greindi frá því í gær að Eyjólfur hafi fyrir landsleik Íslands og Lettlands 12. október síðastliðinn beðið Eið Smára Guðjohnsen um að afsala sér stöðu fyrirliða og tilkynna þá ákvörðun sjálfur.

Á það féllst Eiður ekki enda fannst honum að slík ákvörðun þyrfti að koma frá landsliðsþjálfaranum sjálfum. Eiður var svo fyrirliði gegn Lettum og svo aftur gegn Liechtenstein nokkrum dögum síðar, sem var síðasti leikur landsliðsins undir stjórn Eyjólfs.

„Ég held að við getum ekki velt fyrir okkur einkasamtölum þjálfara og leikmanna og hvað sé rétt og rangt í þeim efnum. Ég hef bara ekki hugmynd um hvað þeir hafa rætt um," sagði Geir. „Það er fyrst og fremst árangur landsliðsins inn á vellinum sem telur. Samstarf okkar við Eyjólf hefur verið gott en það er árangurinn sem telur. Við hefðum viljað fá fleiri stig í þessari undankeppni."

Stjórn KSÍ hefur nú falið formanninum að ganga til viðræðna við nýjan þjálfara.

„Þetta var bara að gerast í dag og ég veit ekki hvað næsta skref verður. Það verður bara að koma í ljós."

Geir sagðist aðspurður ekkert geta sagt til um hvort að starf landsliðsþjálfara verði auglýst eða þá hvort að leitað verði að íslenskum eða erlendum þjálfara.

Hann tók þó skýrt fram að Eyjólfur bæri ekki einn ábyrgð á gengi landsliðsins. „Það eru alls ekki þau skilaboð sem eiga að lesast úr þessu. Það er ekki verið að fría ábyrgð leikmannnana á árangrinum. En það er ólíkt með félagsliðum og landsliðum í þessum efnum, það er ekki hægt að skipta um leikmenn svo auðveldlega."

Ísland hefur fengið átta stig í núverandi undankeppni og er með sjöundu verstu vörn allra þjóða sem taka þátt í undankeppni EM 2008.

Undir stjórn Eyjólfs vann liðið Norður-Íra tvívegis og gerði jafntefli við Spánverja og Liechtenstein á heimavelli. Aðrir leikir hafa tapast en enn á eftir að leika gegn Dönum á útivelli.


Tengdar fréttir

Eyjólfur hættur

Stjórn Knattspyrnusamband Íslands samþykkti á fundi sínum í dag, 27. október, að endurnýja ekki ráðningarsamning við Eyjólf Sverrisson, þjálfara A-landsliðs karla í knattspyrnu sem rennur út þann 31. október næstkomandi.

Hermann átti að taka við fyrirliðabandinu

Fótbolti.net segir frá því í kvöld að Eyjólfur Sverrisson landsliðsþjálfari hafi beðið Hermann Hreiðarsson um að taka við stöðu landsliðsfyrirliða af Eiði Smára Guðjohnsen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×