Íslenski boltinn

Ólafur: Hafði frjálsar hendur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari.
Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari. Mynd/E. Stefán

Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari segir að hann hafi haft algjörlega frjálsar hendur þegar hann réði sér aðstoðarmann.

Pétur Pétursson hefur verið ráðinn aðstoðarmaður Ólafs en hann er þjálfari 2. flokks Breiðabliks og verður það áfram.

Sögusagnir hafa verið um að KSÍ hafi tekið fyrir hendurnar á Ólafi með því að ráða ekki starfandi þjálfara úr Landsbankadeildinni honum til aðstoðar en Leifur Garðarsson hafði verið orðaður við stöðuna. Hann er þjálfari Fylkis.

Ólafur segir þetta algera þvælu enda hafi hann haft frjálsar hendur um hvern hann réði sem aðstoðarmann sinn.

„Ég fékk þau skilaboð frá KSÍ að þessi mál væru algerlega undir mér komin,“ sagði hann. „Ég tel það einfaldlega ekki sniðugt að vera með starfandi þjálfara úr efstu deild sem aðstoðarmann minn. Með því væri áhættan á hagsmunaárekstrum mikil. Frá minni hálfu kom þetta ekki til greina og þess vegna fór ég aðra leið.“

Ólafur segir að hann hafi ekki rætt við fleiri en Pétur vegna starfsins.

„Pétur hefur mikla reynslu, bæði sem þjálfari og fyrrum atvinnu- og landsliðsmaður. Það er reynsla sem ég bý ekki að og þekkir hann þennan heim nokkuð vel. Þar að auki höfum við rætt saman undanfarið og höfum við svipaðar skoðanir á fótbolta.“

Hann segir að hann hafi einnig viljað ráða mann sem væri ekki hræddur við að segja sínar skoðanir umbúðalaust. „Pétur hefur sínar skoðanir og það er alveg ljóst að betur sjá augu en auga.“ 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×