Íslenski boltinn

KSÍ hafnaði boði Georgíu um vináttulandsleik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Jóhannesson, Geir Þorsteinsson og Þórir Hákonarson á fundinum í dag.
Ólafur Jóhannesson, Geir Þorsteinsson og Þórir Hákonarson á fundinum í dag. Mynd/E. Stefán

Georgía bauð KSÍ að leika vináttulandsleik næstkomandi laugardag þegar Ísland á ekki leik í undankeppni EM 2008. Geir Þorsteinsson formaður KSÍ hafnaði boðinu.

Geir sagði á blaðamannafundi KSÍ í dag að boðið hefði komið fyrir um viku síðan. Það hafi einfaldlega verið of skammur fyrirvari að hans mati.

„Ég tók þessa ákvörðun enda þurfum við fyrst og fremst í svona málum að hafa góðan fyrirvara. Það er mjög sjaldan og jafnvel fáheyrt að taka ákvörðun um að spila landsleik með svo skömmum fyrirvara."

Geir sagði að fyrir nokkru síðan, tveimur eða þremur mánuðum, hafi hann rætt þennan landsleikjadag við Eyjólf Sverrisson, þáverandi landsliðsþjálfara, og að niðurstaðan þá hafi verið að spila ekki vináttulandsleik á þessum degi.

Síðan þá hafi hlutirnir vitaskuld breyst en Eyjólfur er nú hættur og Ólafur Jóhannesson tekinn við.

Það kom fram í máli Geirs að tíu Evrópuþjóðir ættu frí frá undankeppninni á laugardaginn, þar á meðal Færeyjar, og að ákveðnar þreifingar hafi verið milli KSÍ og Austurríkis. Austurríki ákvað svo að spila vináttulandsleik við England.

„Við leituðum ekki eftir því að fá landsleik við Færeyjar," sagði Geir aðspurður um málið. Hann ítrekaði þó að það væri stefna KSÍ að spila sem flesta vináttulandsleiki en að það væri nánast ógerlegt að skipuleggja leik með svo skömmum fyrirvara sem tilboð Georgíu bauð upp á.

Aðspurður af hverju Georgía hafi þá yfir höfuð verið að leggja fram tilboðið sagði Geir að þeir væru einfaldlega örvæntingafullir.

Ísland tekur þátt í æfingamóti á Möltu í upphafi næsta árs og þá eru blikur á lofti um að spila æfingaleik í annað hvort lok maímánaðar eða upphafi júnímánaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×