Íslenski boltinn

Guðjón: Fótbolti - ekki kokteilboð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðjón Þórðarson, fyrrum landsliðsþjálfari.
Guðjón Þórðarson, fyrrum landsliðsþjálfari. Mynd/Vilhelm

Guðjón Þórðarson gagnrýndi KSÍ harkalega í umræðuþætti um íslenska landsliðið á Sýn í kvöld.

Ísland tapaði í kvöld fyrir Danmörku, 3-0, í undankeppni EM 2008. Eftir leikinn hafði Hörður Magnússon íþróttafréttamaður Sýnar umsjón með umræðuþætti um stöðu íslenska landsliðsins og fékk til sín til að mynda Geir Þorsteinsson, formann KSÍ, Guðjón Þórðarson og Willum Þór Þórsson.

Guðjón gagnrýndi KSÍ, aðallega fyrir vinnubrögð og forgangsröðun forráðamanna sambandsins.

„Þetta er svolítið sérstakt ferli,“ sagði Guðjón um ráðningu Ólafs Jóhannessonar, landsliðsþjálfara Íslands. Ólafur var ráðinn daginn eftir að það var tilkynnt að Eyjólfur Sverrisson myndi ekki halda áfram sem landsliðsþjálfari.

„Þegar þessi staða kemur upp er eðlilegt að ræða við hóp manna,“ sagði Guðjón. „Þeir [forráðamenn KSÍ] hljóta að þurfa að setjast niður og gera sér grein fyrir sínum markmiðum.“

Guðjón tók þó fram, eins og aðrir, að ekki væri að gagnrýna Ólaf í þessari umræðu.

„Ólafur hefur fullt af kostum sem koma til með að nýtast honum vel í þessu starfi. En í sjálfu sér kemur ekki á óvart hvernig vinnubrögð KSÍ eru í þessu máli eins og svo mörgu öðru. Það er margt sem KSÍ þarf að skoða varðandi sín vinnubrögð.“

Guðjón segir að forgangsröðun KSÍ þurfi að vera skýr og þar þurfi knattspyrnan að vera í efsta sæti.

„Það mega ekki vera kokteilboð og að skála í kampavíni út og suður sem ræður því hvernig undirbúningi landsliðsins er háttað. Undirbúningurinn hlýtur að vera helsta vandamál landsliðsins og hvernig er hlúð að landsliðsmönnunum. Það þarf að hlúa að þeim til að búa til þann baráttuanda sem til þarf svo að liðið geti náð hagstæðum úrslitum. Við erum hér vegna fótboltans en ekki öfugt.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×