Körfubolti

Svartfellingar númeri of stórir

Jón Arnór skoraði 20 stig í kvöld
Jón Arnór skoraði 20 stig í kvöld Mynd/AntonBrink

Íslenska landsliðið í körfuknattleik tapaði í kvöld fyrir Svartfellingum 80-66 í Evrópukeppninni í körfubolta. Gestirnir höfðu örugga forystu lengst af leik og var sigur þeirra aldrei í sérstakri hættu.

Íslenska liðið komst yfir 6-2 í leiknum en eftir það náðu Svartfellingar forystu sem þeir létu aldrei af hendi. Gestirnir höfðu yfir 22-14 eftir fyrsta leikhluta og 47-24 í hálfleik.

Það var öðru fremur fyrri hálfleikurinn sem var íslenska liðinu að falli í kvöld, en allt annað var að sjá íslensku strákana í þeim síðari.

Íslenska liðið skoraði fleiri stig en andstæðingurinn í síðari hálfleik og hefði með smá heppni geta hleypt spennu í leikinn, en strákarnir fóru á köflum illa að ráði sínu og fóru t.d. illa með vítaskotin sín.

Jón Arnór Stefánsson var í nokkrum sérflokki í sóknarleiknum og skoraði 20 stig, Logi Gunnarsson skoraði 11 og Hlynur Bæringsson skoraði 8 stig og hirti 7 fráköst.

Vlado Scepanovic var stigahæstur hjá Svartfellingum með 16 stig og Goran Jeretin skoraði 12.

Svartfellingar unnu baráttuna um fráköstin með yfirburðum 48-27, enda með gríðarlega hávaxið lið sem gerði íslensku strákunum erfitt fyrir undir körfunni.

Miðherjinn Fannar Ólafsson hjá KR lék ekki með íslenska liðinu í kvöld vegna veikinda, en hann mun væntanlega fara með íslenska liðinu til Austurríkis í fyrramálið þar sem næsti leikur er á laugardaginn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×