Körfubolti

Mjög sáttur með að fá að koma inn og klára leikinn

Óskar Ófeigur Jónsson í Róm skrifar

Jón Arnór Stefánsson og félagar í Lottomatica Roma unnu frábæran 84-70 sigur á Montepaschi Siena og komu í veg fyrir að Siena-menn ynnu ítalska meistaratitilinn á þeirra eigin heimavelli.

Jón Arnór stóð sig mjög vel og fór hreinlega hamförum í fyrsta leikhluta þegar hann skoraði öll sjö stigin sín. Jón Arnór tók auk þess 3 fráköst og stal 5 boltum á þeim 26 mínútum sem hann spilaði og Roma vann leikinn með 14 stigum þegar hann var inn á.

Jón Arnór var ánægður og sáttur í leikslok og fékk líka að mikla athygli hjá fjölmiðlamönnum eftir leik. „Við náðum að vera við hliðina á þeim allan leikinn og þá finnst mér eins og þeir séu öðruvísi. Þeir eru að gera mistök í endann. Ég trúi því að ef að við náum að halda þessu jöfnu þá gengur þetta mun betur hjá okkur en þegar að við erum komnir 20 stigum yfir. Við gerðum mistök en ekki of mörg og vorum síðan traustir í vörninni," sagði Jón Arnór eftir sigurinn á Siena í kvöld.

Jón Arnór spilaði lokakafla leiksins með fjórar villur en fékk ekki fimm villur eins og í síðasta leik. „Ég var orðinn svolítið þreyttur og bað um skiptingu. Svo tóku þeir góða rispu en ég var mjög sáttur með að fá að koma inn og klára leikinn. Hann hefur látið mig gera það í vetur. Ég reyndi að koma ró á þetta og passa það að menn yrði of spenntir," sagði Jón Arnór eftir leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×