Körfubolti

Rússarnir stóðu í Bandaríkjamönnum

Kobe Bryant var atkvæðamestur í bandaríska liðinu í morgun
Kobe Bryant var atkvæðamestur í bandaríska liðinu í morgun AFP

Bandaríska landsliðið í körfubolta fékk nokkuð meiri samkeppni en í síðustu leikjum þegar það mætti Evrópumeisturum Rússa í æfingaleik í Kína í morgun. Bandaríska liðið vann þó nokkuð öruggan sigur 89-68 þegar upp var staðið.

Leikurinn var liður í lokaundirbúningi hins stjörnum prýdda liðs Bandaríkjanna, en Rússarnir veittu því talsvert meiri keppni en Litháar gerðu tveimur dögum áður. Bandaríkjamennirnir höfðu yfir í hálfleik 46-31.

Bandaríska liðið hafði skorað að meðaltali 118 stig í fyrstu þremur æfingaleikjum sínum og hafði unnið andstæðinga sína með yfir 40 stiga mun að meðaltali.

Rússarnir létu NBA stjörnurnar hafa mun meira fyrir hlutunum og tóku t.a.m. alveg af þeim hraðaupphlaupin og létu þá spila meira á hálfum velli.

Kobe Bryant var stigahæstur í liði Bandaríkjamanna með 19 stig, þar af 12 í síðari hálfleik, Carmelo Anthony skoraði 17 stig og hirti 7 fráköst og Dwyane Wade átti annan góðan leik og setti 16 stig.

Andrei Kirilenko var stigahæstur hjá Rússunum með 18 stig og 8 fráköst og bandaríski leikstjórnandinn JR Holden sem leikur með rússneska liðinu var með 17 stig.

Uppselt var á leikinn þar sem ríflega 14,000 manns fylgdust með liðunum etja kappi í Sjanghæ og flestir þeirra virtust vera aðdáendur Kobe Bryant ef marka mátti fagnaðarópin á pöllunum.

Tölfræði leiksins 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×