Handbolti

Einar: Viðurkenning á góðu starfi HSÍ

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Einar Þorvarðarson, framkvæmdarstjóri HSÍ.
Einar Þorvarðarson, framkvæmdarstjóri HSÍ.

Einar Þorvarðarson, framkvæmdarstjóri HSÍ, segir sambandið fagna því innilega að ríkisstjórn Íslands ákvað að styrkja sambandið um 50 milljónir króna.

„Þetta hefur mjög mikla þýðingu fyrir sambandið," sagði Einar í samtali við Vísi en hann var enn staddur í Peking. „Við þurftum að leggja út mikið í kostnað vegna Ólympíuleikanna en þetta gerir það að verkum að við náum öllum þeim endum saman og meira en það. Þetta gerir okkar rekstrarumhverfi miklu betra til framtíðar."

Einar segir að þetta sé mikil viðurkenning á því góða starfi sem hafi verið unnið hjá HSÍ í gegnum árum.

„Árangur landsliðsins nú er afrakstur margra ára vinnu. Ég held að við höfum verið á fullu í því að halda okkar afreksstefnu gangandi enda ekkert sérsamband sem spilar jafn marga landsleiki á ári með öll sín landslið. Við erum búnir að vera á fullu í mörg ár að búa til framtíðarhópa fyrir okkur sjálfa."

„Það er ljóst að ég tel að þetta gæti orðið til þess að það verði þó nokkrar breytingar á okkar rekstrarumhverfi. Við getum nú einbeitt okkur betur að innanlandsmálum og farið meira í útbreiðslustarf. Reyndar tel ég að þessi frammistaða liðsins hafi verið ansi mikið útbreiðslustarf fyrir sambandið."

„Fyrst og fremst erum við að reka sambandið til að hlúa að handboltanum í landinu og landsliðunum okkar. Stefnan mun því ekkert breytast mikið. Það er allt keyrt í botni eins og hægt er og allur tími nýttur til fullnustu."






Tengdar fréttir

Ríkisstjórnin styrkir HSÍ um 50 milljónir

Ríkisstjórnin ákvað í morgun að styrkja Handknattleikssamband Íslands um 50 milljónir króna í kjöfar frækilegs árangurs íslenska landsliðsins í handbolta og einstæðs afreks á Ólympíuleikunum í Peking. Sem kunnugt er vann landsliðið til silfurverðlauna á leikunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×