Körfubolti

Fáránlegt að hleypa þeim svona langt yfir

Mynd/Hörður

Sigurður Ingimundarson landsliðsþjálfari var ósáttur við frammistöðu sinna manna í fyrri hálfleiknum gegn Svartfellingum í kvöld þegar Ísland tapaði landsleik þjóðanna 80-66 í Laugardalshöllinni.

"Þegar við erum að spila á fullu og dettum ekki í volæði þó móti blási, þá getum við spilað við hvaða lið sem er og gerðum það í seinni hálfleik. Það var fáránlegt hjá okkur að hleypa þeim meira en 20 stigum fram úr okkur, eiginlega óafsakanlegt. Við vorum að keyra veikt upp að körfunni hjá þeim og það skilar engu," sagði Sigurður í samtali við Vísi eftir leikinn.

"Þetta er frábært lið sem við vorum að spila við, en við eigum að vera betri en þetta. Ég er ánægður með að við næðum að koma okkur meira inn í leikinn í seinni hálfleiknum."

Sigurður sagðist reikna með að Fannar Ólafsson fari með íslenska liðinu utan í fyrramálið, en Fannar missti af leiknum í kvöld vegna flensu.

Ísland mætir Austurríki í fjórða leik sínum í B-keppninni á laugardaginn, en hefur til þessa lagt Dani en tapað fyrir Hollendingum og nú Svartfellingum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×