Körfubolti

Bandaríkjamenn völtuðu yfir Tyrki

LeBron James
LeBron James NordcPhotos/GettyImages

LeBron James skoraði 20 stig og hitti úr 8 af 9 skotum sínum í dag þegar bandaríska landsliðið í körfubolta rótburstaði Tyrki 114-82 í öðrum æfingaleik sínum fyrir Ólympíuleikana í Kína.

Bandaríska liðið byrjaði rólega í leiknum en tók öll völd á vellinum í öðrum leikhluta. Tyrkneska liðið skoraði aðeins tíu körfur utan af velli samanlagt í öðrum og þriðja leikhluta og eftir það voru úrslit leiksins ráðin.

James, sem leikur með Cleveland í NBA deildinni, var stigahæstur hjá Bandaríkjamönnunum með 20 stig, Carmelo Anthony hjá Denver skoraði 17 stig og Orlando-miðherjinn Dwight Howard skoraði megnið af 14 stigum sínum með tröllatroðslum.

NBA leikmennirnir Mehmet Okur og Hedo Turkoglu voru ekki með tyrkneska liðinu í leiknum, en Cenk Akyol var þeirra stigahæstur með 22 stig.

Þetta var annar sigur Bandaríkjamannanna í undirbúningi sínum fyrir ÓL og fyrsti leikur þess síðan það mætti til Kína. Næsti andstæðingur liðsins er sterkt lið Litháa á morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×