Handbolti

Deildarbikarsmálið tekið fyrir í næstu viku

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Framarar fagna deildabikarsmeistaratitilinum sínum.
Framarar fagna deildabikarsmeistaratitilinum sínum. Mynd/Arnþór

Enn er ekki búið að leiða deildarbikarsmálið svokallaða til lykta fyrir dómstóli HSÍ þar sem málið var tekið fyrir öðru sinni í vikunni.

Málið snýst um að í úrslitaleik Fram og Hauka í deildabikarkeppni HSÍ hafi ritari skráð eitt aukamark á Fram í fyrri hálfleik sem hafi breytt gangi leiksins mikið. Svo fór að Fram vann með tveggja marka mun en síðasta markið skoruðu þeir þegar að Haukar voru nánast hættir að verjast þar sem þeir töldu sem svo að leikurinn væri svo gott sem tapaður.

Haukar kærðu úrslit leiksins en þeirri kæru var vísað frá vegna formgalla. Nú hafa Haukar kært á nýjan leik og er málið nú til meðferðar hjá dómstóli HSÍ.

Bergþóra Sigmundsdóttir er formaður dómstólsins og sagði í samtali við Vísi að ómögulegt væri að segja til um hvenær niðurstaða væri væntanleg.

„Málið er í höndum Jóhannesar Alberts Sævarssonar og getur hann ekki tjáð sig efnislega um málið á meðan það er til meðferðar," sagði hún.

„Þegar hefur verið reynt að leita sátta hjá málsaðilum en það hefur ekki tekist. Það liggur því fyrir að málið verði tekið til efnislegrar málsmeðferðar."

Jóhannes sagði í samtali við Vísi að málsaðilar væru nú að vinna að greinargerðum sínum um málið og að málflutningur færi væntanlega fram um miðja næstu viku. Niðurstöðu er svo að vænta í lok næstu viku eða fljótlega eftir næstu helgi.


Tengdar fréttir

Óvíst hvort Fram haldi deildarbikartitlinum

Nú hefur komið í ljós að sennilega hafa starfsmenn á úrslitaleik Fram og Hauka í deildarbikarkeppni karla í handbolta skráð vitlausan fjölda marka fyrrnefnda liðsins í fyrri hálfleik.

Aron: Munum kæra ef rétt reynist

Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka, sagði í samtali við Vísi að þeir munu kæra leikinn við Fram í ljós ef í ljós kemur að mark Fram var tvískráð í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×