Menning

Ljóðahátíð í ríki sjoppunnar

Bókmenntir Kristín Eiríksdóttir skáldkona, er listrænn stjórnandi ljóðahátíðar Nýhils sem hefst á föstudagskvöld.  Mynd: Fréttablaðið/EÓL
Bókmenntir Kristín Eiríksdóttir skáldkona, er listrænn stjórnandi ljóðahátíðar Nýhils sem hefst á föstudagskvöld. Mynd: Fréttablaðið/EÓL

Sex erlend skáld og tólf íslensk lesa í ljóðapartíum á Smíðaverkstæði Þjóðleikhússins og taka þátt í umræðum með Birnu Bjarnadóttur og Ármanni Jakobssyni í Norræna húsinu á Fjórðu alþjóðlegu ljóðahátíð Nýhils sem hefst á föstudag. Glæsilegt þýðingarit verður gefið út samhliða hátíðinni, sem stendur fram á sunnudag.

Nýhil efnir til hátíðarhalda um ljóðið í fjórða sinn og fer hún fram í Norræna húsinu og á Smíðaverkstæði Þjóðleikhússins og er dagskráin metnaðarfull og spennandi. Um er að ræða einu íslensku hátíðina þar sem ljóð eru í brennidepli, en hún hefur þegar skipað sér sess sem framsækinn listviðburður í íslensku menningarlífi. Hún var haldin í fyrsta sinn 2005 og hafa skipuleggjendur lagt sérstaka áhersla á að leiða saman íslenska og erlenda strauma í ljóðlist, auk þess sem frjótt samspil við aðrar listgreinar hefur verið í fyrirrúmi.

Erlendir gestir hátíðarinnar að þessu sinni eru þau Nina Søs Vinther (Danmörk), Ida Börjel (Svíþjóð), Hanno Millesi (Austurríki), Ann Cotten (Þýskaland), Süreyyya Evren (Tyrkland) og Morten Søkilde (Danmörk).

Þá munu eftirtalin íslensk skáld koma fram á hátíðinni: Kristín Svava Tómasdóttir, Kári Páll Óskarsson, Ingólfur Gíslason, Eiríkur Örn Norðdahl, Haukur Már Helgason, Kristín Eiríksdóttir, Linda Vilhjálmsdóttir, Jón Örn Loðmfjörð, Örvar Þóreyjarson Smárason, Ófeigur Sigurðsson, Una Björk Sigurðardóttir og Ragnar Ísleifur Bragason.

Glæsilegt rit verður gefið út í tilefni hátíðarinnar með þýðingum á verkum íslenskra og erlendra þátttakenda. Ritinu er ætlað að efla kynningu á skrifum ljóðskáldanna, en í því birtast í fyrsta sinn enskar þýðingar á verkum marga íslenskra ungskálda. Kári Páll Óskarsson, skáld og nemi í þýðingafræði, er ritstjóri þýðinga- og dagskrárritsins. Hönnun þess annast myndlistarkonan Sara Riel, en frágangur bókarinnar verður bæði óhefðbundinn og metnaðarfullur.

Dagskrá hátíðarinnar samanstendur af tveimur ljóðapartíum, föstudags- og laugardagskvöld, sem standa frá 20:00 til 23:00. Bæði fara þau fram á Smíðaverkstæði Þjóðleikhússins, en seinna partíið er hluti af dagskrá menningarnætur í Reykjavík. Ólöf Arnalds leikur tónlist á föstudagskvöldinu, en útskriftarnemar í

fræðum og framkvæmd við Listaháskóla Íslands munu ramma inn dagskrána með óvæntum uppákomum bæði kvöldin.

Ekki síður mikilvægur hluti dagskrárinnar eru pallborðsumræður þar sem landsins rósfingruðustu bókmenntafræðingar, þau Birna Bjarnadóttir og Ármann Jakobsson, mun rekja garnirnar úr ungum rithöfunum um skáldskap þeirra. Umræðurnar fara fram milli 13 og 14.30 á laugardeginum, í Norræna húsinu, og eru einnig hluti af dagskrá menningarnætur. Milli 18 og 19 sama dag verður einnig stuttur upplestur norrænna ljóðskálda í Norræna húsinu. Í fyrri lotu munu Ármann og skáldin beina umræðum í farveg útfrá tveimur spurningum: Í fyrsta lagi er spurt: leitar ljóðlistin ávallt að nýjum byrjunarreit? Í öðru lagi er spurt: Er ljóðlist samtímans síður ljóðræn en ljóðlist fortíðarinnar? Í pallborði fyrri lotu sitja þau Ann Cotten (Austurríki), Nina Søs Vinther (Danmörk), Süreyyya Evren (Tyrkland) og Haukur Már Helgason. Seinni lota pallborðsumræðna hefst að loknu örstuttu kaffihléi, en þar verður spurt: Hvert er rými listarinnar í Ríki sjoppunnar á tíma kapítalískrar neysluhyggju? Birna Bjarnadóttir mun kría svör út úr þessum skáldum: Ida Börjel (Svíþjóð), Morten Søkilde (Danmörk), Eiríkur Örn Norðdahl og Kristín Eiríksdóttir.

Hátíðinni lýkur sunnudaginn 24. ágúst með málþingi um óháða útgáfustarfsemi og ljóðabókaútgáfu á alþjóðavísu. Þátttakendur í umræðum verða þau Süreyyya Evren og Nina Søs Vinther, en þau hafa bæði komið að útgáfumálum í sínum heimalöndum. Nina hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra rithöfundaforlagsins Arena sem hefur verið leiðandi í ljóðabókaútgáfu í Danmörku, en býr að áratuga hefð sem framsækið bókaforlag undir beinni stjórn starfandi rithöfunda. Staður og nákvæmur tími málþingsins verða auglýst innan skamms.

Listrænn stjórnandi fjórðu alþjóðlegu ljóðahátíðar Nýhils er Kristín Eiríksdóttir, en framkvæmdastjóri er Viðar Þorsteinsson. Hátíðin er haldin í samstarfi við Norræna húsið og Reykjavíkurborg, en nýtur einnig stuðnings frá Clara Lachmanns fond og Prentsmiðjunni Odda. Dagskrá hátíðarinnar í heild má sjá á http://nyhil.blogspot.com/

pbb@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×