Körfubolti

Hamar sló bikarmeistara KR út í DHL-Höllinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigrún Ámundadóttir lék vel fyrir Hamar í kvöld.
Sigrún Ámundadóttir lék vel fyrir Hamar í kvöld. Mynd/Vilhelm

Hamar varð fyrsta liðið til þess að vinna KR í kvennakörfunni í vetur þegar liðið vann tíu stiga sigur á KR, 64-74, í DHL-Höllinni í kvöld. KR var með frumkvæðið framan af leik en frábær sprettur Hamars í upphafi fjórða leikhluta lagði grunninn að sigrinum.

Sigrún Ámundadóttir skoraði 18 stig fyrir Hamar á móti sínum gömlu félögum, Guðbjörg Sverrisdóttir var með 17 stig og þær Kristrún Sigurjónsdóttir og Koren Schram skoruðu 13 stig hvor.

Jenny Pfieffer-Finora skoraði 18 stig fyrir KR og Signý Hermannsdóttir var með 14 stig og 20 fráköst.

Fjölnir sló Skallagrím út úr bikarnum fyrr í dag með því að vinna 54-49 sigur í hörku spennandi leik í Borgarnesi. Bergdís Ragnarsdóttir skoraði 15 stig fyrir Fjölni og Gréta María Grétarsdóttir var með 10 stig, 8 fráköst og 5 stoðsendingar. Íris Gunnarsdóttir skoraði 17 stig fyrir Skallagrím.

Liðin sem eru komin í átta liða úrslit eru: Snæfell (sat hjá) Keflavík, Haukar, Þór Akureyri, Laugdælir, Fjölnir og Hamar . Grindavík b og Njarðvík mætast síðan í síðasta leiknum annað kvöld.

Frekari umfjöllun og viðtöl eftir leikinn birtast hér á Vísi seinna í kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×