Körfubolti

Frækinn sigur hjá Íslandi gegn Hollandi

Ómar Þorgeirsson skrifar
Logi Gunnarsson í leiknum gegn Hollandi í dag.
Logi Gunnarsson í leiknum gegn Hollandi í dag. Mynd/Stefán

Íslendingar unnu 87-75 sigur á Hollendingum í B-deild Evrópukeppninnar í Smáranum í dag en staðan í hálfleik var 59-31 Íslendingum í vil.

Jón Arnór Stefánsson var atkvæðamestur hjá Íslandi með 23 stig og Páll Axel Vilbergsson kom næstur með 18 stig.

Íslendingar byrjuðu leikinn af miklum krafti og Páll Axel og Jón Arnór röðuðu niður þristum í fyrsta leikhlutanum.

Jón Arnór var kominn með 15 stig þegar fyrsta leikhluta lauk og Ísland leiddi þá með helmings mun 24-12.

Íslendingar héldu uppteknum hætti í öðrum leikhluta og Jóni Arnóri héldu engin bönd og hann var kominn með 21 stig þegar flautað var til hálfleiks í stöðunni 59-31.

Hollendingarnir fengu einnig að kenna á því frá Páli Axel sem setti niður fimm þrista í fyrri hálfleik úr sjö skottilraunum.

Íslendingar náðu að slá Hollendinga algjörlega út af laginu með grimmum varnarleik og beinskeyttum sóknarleik en á pappírunum eiga Hollendingar að vera með sterkara lið og státa til að mynda af tveimur leikmönnum sem verða í NBA-deildinni næsta vetur.

Það telur þó lítið þegar á völlinn er komið eins og Íslendingar sýndu það í dag.

Íslendingar virkuðu örlítið kaldir í upphafi þriðja leikhluta og fyrstu stigin létu bíða eftir sér og Hollendingar söxuðu smátt og smátt á forskotið.

Staðan var orðin 66-55 fyrir lokaleikhlutann og spennan gríðarleg.

Það er skemmst að segja frá því að Íslendingar héldu haus í fjórða leikhlutanum og hleyptu Holendingum aldrei nálægt sér og unnu sem segir að lokum 87-75.

Stign hjá Íslandi:

Jón Arnór Stefánsson 23 (5 fráköst), Páll Axel Vilbergsson 18, Logi Gunnarsson 16, Fannar Ólafsson 13 (6 fráköst), Pavel Ermolinskij 7 (10 stoðsendingar, 8 fráköst), Magnús Þór Gunnarsson 3, Helgi Már Magnússon 3, Hörður Axel Vilhjálmsson 2, Sigurður Þorsteinsson 2.

Sigurinn var verðskuldaður og sigur liðsheildarinnar hjá íslenska liðinu sem skaust upp að hlið Austurríkis í A-riðli.

Næsti leikur Íslands er gegn Svarfjallalandi á miðvikudaginn.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×