Handbolti

Myndi ekki vilja spila á móti íslensku villimönnunum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Snorri hér í leik gegn Makedóníu ytra.
Snorri hér í leik gegn Makedóníu ytra. Mynd/Aleksandar Djorovic

Snorri Steinn Guðjónsson kom mjög óvænt inn í íslenska landsliðið á ný fyrir síðustu þrjá leiki en hann er enn í endurhæfingu vegna meiðsla. Þrátt fyrir það lék hann afar vel gegn Norðmönnum og svo í dag.

„Ætlarðu að tala við mig eftir þennan leik? Heilt mark og tvær stoðsendingar," sagði Snorri Steinn hógvær að venju.

„Þetta skrifast ekkert á mig. Við vorum með þá allan leikinn og liðið að leika virkilega vel. Munurinn núna og gegn Norðmönnum er að við náðum að brjóta andstæðinginn almennilega niður. Varnarleikurinn og Bjöggi frábær," sagði Snorri og bætti við.

„Ég hafði orð á því inn í klefa að sem betur fer er ég Íslendingur og þarf ekki að spila á móti þessum villimönnum. Þeir eiga að heita góðir varnarmenn en ég held að þeir kunni ekkert reglurnar. Þeir ráðast bara á allt sem hreyfist og það er allt lamið í klessu," sagði Snorri og hló dátt.

„Það var ánægjulegt að sjá liðið sýna mikinn karakter eftir að hafa klúðrað niður sigrinum á móti Norðmönnum. Við tryggðum okkur sætið á EM með glans," sagði Snorri.

Hann segir að sér líði ágætlega þó svo hann sé enn í endurhæfingu og það hafi gefið sér mikið að fá að spila smá handbolta eftir langa fjarveru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×