Handbolti

Heiðmar með sjö í tapleik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Heiðmar Felixsson.
Heiðmar Felixsson.

Fjölmargir Íslendingar voru í eldlínunni með sínum liðum í þýsku deildunum í handbolta og víðar í Evrópu í gær.

Heiðmar Felixsson átti góðan leik fyrir Lübbecke er liðið tapaði fyrir Füchse Berlin í Íslendingaslag í þýsku úrvalsdeildinni á heimavelli. Hann skoraði sjö mörk en Þórir Ólafsson var með þrjú mörk.

Dagur Sigurðsson er þjálfari Füchse Berlin en Rúnar Kárason skoraði tvö mörk fyrir liðið í gær.

Ingimundur Ingimundarson skoraði tvö mörk fyrir Minden sem tapaði fyrir Melsungen á útivelli, 28-27. Gylfi Gylfason komst ekki á blað hjá Minden.

Alexander Petersson skoraði tvö mörk fyrir Flensburg sem vann Balingen á heimavelli, 33-29.

Flensburg er í sjötta sæti deildarinnar með tólf stig, Füchse Berlin í því áttunda með tíu stig, Lübbecke í tólfta sæti með sex stig og Minden í því fjórtánda með fimm.

Einnig var leikið í þýsku B-deildinni í gær. Einar Ingi Hrafnsson skoraði eitt mark fyrir Nordhorn sem vann Bad Schwartau í norðurriðli deildarinnar.

Emsdetten, lið Hreiðars Guðmundssonar markvarðar, vann Eintracht Hildesheim á heimavelli, 29-26.

Í suðurriðlinum skoraði Arnar Jón Agnarsson fjögur mörk fyrir Aue sem tapaði fyrir Gross-Bieberau á heimavelli, 35-27.

Emsdetten er í öðru sæti norðurriðilsins og Nordhorn í fimmta sæti. Aue er í tíunda sæti suðurriðilsins.

Í Svíþjóð var Gunnar Steinn Jónsson markahæstur leikmanna Drott með sjö mörk er liðið tapaði fyrir Ystad á útivelli, 31-29. Drott er í fimmta stæi deildarinnar með átta stig eftir sjö leiki.

Andri Stefan skoraði fimm mörk fyrir norska liðið Fyllingen sem tapaði á heimavelli fyrir Alingsås frá Svíþjóð, 28-26, í Meistaradeild Evrópu.

Svissneska liðið Amicitia Zürich fékk sitt fyrsta stig í Meistaradeildinni er liðið gerði jafntefli við Vardar Skopje á útivelli. Kári Kristján Kristjánsson komst ekki á blað í leiknum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×