Íslenski boltinn

Leikið í VISA-bikar kvenna í kvöld

Ómar Þorgeirsson skrifar
Bikarmeistarar KR.
Bikarmeistarar KR. Mynd/E. Stefán

Spennan magnast í VISA-bikar kvenna en í kvöld fara fram athyglisverðir leikir í átta-liða úrslitunum.

Boðið verður upp á tvær innbyrðis viðureignir Pepsi-deildarliða þar sem Breiðablik og Þór/KA mætast annars vegar og Stjarnan og KR hins vegar. Þá tekur 1. deildarlið Völsungs á móti Val og 1. deildarlið ÍBv heimsækir Fylki.

Bikarmeistarar KR hafa átt erfitt uppdráttar í Pepsi-deildinni í sumar og VISA-bikarinn er nú eini raunhæfi möguleiki liðsins á titli og því verður spennandi að sjá hvernig til tekst gegn toppliði Stjörnunnar, sem hefur verið óárennilegt heim að sækja í sumar og unnið alla leiki sína á Stjörnuvellinum.

Stjörnustúlkur unnu ennfremur leik liðanna í deildinni á KR-velli á dögunum nokkuð örugglega og KR-stúlkur því væntanlega í hefndarhug.

Breiðablik og Þór/KA mætast í hörkuleik á Kópavogsvelli en liðin hafa unnið hvort sinn leikinn í innbyrðisviðureignum í sumar. Breiðablik vann 6-1 stórsigur á Kópavogsvelli snemma sumars en Þór/KA svaraði með 2-0 sigri á Akureyrarvelli í síðustu umferð Íslandsmótsins. Það má því búast við spennandi leik þegar liðin mætast í kvöld.

Íslandsmeistarar Vals ferðast til Húsavíkur og mæta þar 1. deildarliði Völsungs en Hlíðarendaliðið er sem fyrr á toppi Pepsi-deildarinnar og vann sannfærandi sigur á KR í síðustu umferð íslandsmótsins.

1. deildarlið ÍBV heimsækir Fylki á Árbæjarvöll í kvöld en Eyjastúlkur hafa þegar slegið tvö Pepsi-deildarlið úr keppninni, Aftureldingu/Fjölni og GRV.

Leikur Völsungs og Vals hefst kl. 18 en hinir leikirnir kl. 19.15.

Leikir kvöldins:



Völsungur-Valur kl. 18

Breiðablik-Þór/KA kl. 19.15

Stjarnan-KR kl. 19.15

Fylkir-ÍBV kl. 19.15










Fleiri fréttir

Sjá meira


×