Fótbolti

Wenger hefur mikla trú á Mario Balotelli hjá Inter

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mario Balotelli í leik með Inter á þessu tímabili.
Mario Balotelli í leik með Inter á þessu tímabili. Mynd/AFP

Arsene Wenger, stjóri Arsenal, hefur mikla trú á Mario Balotelli hjá Inter og spáir því að hann verði spútnikstjarna Meistaradeildarinnar á þessu tímabili. Balotelli þykir vera hæfileikaríkur framherji en hann er einnig þekktur fyrir það að hafa litla stjórn á skapi sínu.

West Ham var að reyna að fá Balotelli að láni frá Inter en tókst ekki. Jose Mourinho hefur átti í nokkrum erfiðleikum með Balotelli og hefur ítrekað hent honum út úr liði sínu vegna framkomu hans. Balotelli hefur komið inn á sem varamaður í fyrstu leikjum Inter á þessu tímabili.

Mario Balotelli er 19 ára og 189 sentímetra framherji sem skoraði 8 mörk í 22 deildarleikjum með Inter á síðasta tímabili. Hann er fæddur í Palermo á Ítalíu en foreldrar hans komu þangað frá Ghana.

„Ég mun hafa augun á Balotelli í vetur því það er leikmaður sem ég er mjög hrifinn af. Það er mín skoðun að hann geti orðið einn af þeim bestu," sagði Wenger.

Balotelli er með ítalskt ríkisfang og hefur spilað 12 leiki og skorað 5 mörk með 21 ára landsliði Ítala. Hann á hinsvegar enn eftir að fá tækifæri með A-landsliðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×