Íslenski boltinn

Atli: Þekkti varla leikmennina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Atli Eðvaldsson á hliðarlínunni í kvöld.
Atli Eðvaldsson á hliðarlínunni í kvöld. Mynd/Arnþór
Atli Eðvaldsson viðurkennir að það hafi verið erfitt að koma inn í leik Vals og KA í kvöld eftir að hafa náð aðeins einni æfingu með Val fyrir leikinn.

Atli tók við þjálfun liðsins af Willum Þór Þórssyni sem hætti í síðustu viku. Atli er búsettur í Þýskalandi og kom til landsins í gær. Hann hefur lítið getað fylgst með íslenska boltanum vegna þessa.

„Ég þekkti varla strákana þegar ég var að reyna að stilla þeim upp á æfingu í gær. En ég reyndi nú að muna eftir nöfnunum þeirra og þá fékk ég tilfiningu fyrir þeim. En ég held að það hafi bara gengið þokkalega vel í kvöld. Við gerðum margt ágætt og náðum af og til að loka inn á svæði sem þeir voru að reyna að nýta sér," sagði Atli.

„Vandamálið virðist vera að leikmenn eru ef til vill svolítið stressaðir á boltanum. Það er eitthvað sem við þurfum að laga og þegar við þorum að halda boltanum og spila honum þá verður þetta betra."

Valur mætir næst KR í deildinni um helgina og Atli ætlar að nýta tímann vel fram að því. „Ég held að skipulagið á liðinu verði orðið betra og ég sé mikla möguleika í þessu liði. Valur á að geta unnið öll liðin í deildinni."

Atli lék á sínum tíma með bæði Val og KR auk þess sem hann þjálfaði einnig síðarnefnda liðið. Hann segir það skondna tilviljun að hans fyrsti deildarleikur nú, sem þjálfari Vals, sé gegn KR.

„Minn fyrsti deildarleikur með KR, bæði sem leikmaður og þjálfari, var gegn Val. Minn fyrsti leikur sem leikmaður með Val var gegn KR en þá kom ég inn á sem varamaður og skoraði. Þetta er skrýtið. En alveg örugglega góðs viti."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×