Íslenski boltinn

Kristján Guðmundsson: Vitum af veikleikum í varnarleik FH-liðsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkurliðsins.
Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkurliðsins. Mynd/Anton

„Við vorum feykilega góðir allan tímann þar sem við erum ellefu inn á vellinum. Við náðum þessum markmiði okkar sem var að skora fyrsta markið í leiknum," sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur eftir 3-1 sigur á FH í átta liða úrslitum VISA-bikarsins í kvöld.

Keflavík skoraði eina mark fyrri hálfleiks og komst síðan í 3-0 með tveimur mörkum á fyrstu þrettán mínútum seinni hálfleiks.

„Byrjunin í seinni hálfleik var síðan stórkostleg en svo var Jói óheppinn að missa fótanna og vera rekinn útaf með sitt annað gula spjald. Þá varð þetta erfitt á móti jafnsterku liði og FH en okkur tókst að klára þetta þótt að við þyrftum að spila manni færri í 35 mínútur," sagði Kristján.

Kristján tók Alen Sutej út úr miðverðinum fyrir Harald Guðmundsson sem lék sinn fyrsta leik með liðinu. „Það að brjóta upp hafsentapar er alltaf gagnrýnisvert en Alen hefur spilað bakvörð og er alinn upp sem bakvörður þannig að hann átti auðveldara með það að spila í bakverðinum. Hann er líka hraðari leikmaður en Haraldur. Við tókum þessa ákvörðun og það gekk upp," sagði Kristján.

Símun Samuelsen átti stórkostlegan leik í kvöld, skoraði tvö mörk og átti risaþátt í því þriðja.

„Símun hefur verið vaxa í síðustu leikjum og spilað betur og betur. Hann er að springa út og spilaði feykilega vel í kvöld. Þetta eru fyrstu mörkin hans í sumar sem er alveg með ólíkindum," sagði Kristján en hver er galdurinn á bak við að hafa svona gott tak á FH-liðinu.

„Við vitum af veikleikum í varnarleik FH-liðsins og sjálfsögðu reynum við að höggva þar. Það er bara að trúa því að það sé hægt að vinna þá og ætla sér það. Það þarf að ætla sér hlutina til þess að þeir gangi upp. Við gírum okkur upp í það að vera jafngóðir og svo bara betri en þeir í þeim leikjum sem við spilum við þá. Það er bara fínt og nú þurfum við að halda því áfram í öllum leikjum sem við spilum," sagði Kristján.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×