Fótbolti

Eistland er búið að vinna alla landsleiki ársins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eistneska kvennalandsliðið í knattspyrnu.
Eistneska kvennalandsliðið í knattspyrnu. Mynd/Heimasíða EJL

Íslenska kvennalandsliðið mætir því eistneska í undankeppni HM á Laugardalsvellinum í kvöld. Það er lítið vitað um eistneska landsliðið sem er í 78. sæti á Styrkleikalista FIFA eða 59 sætum neðar en íslenska liðið.

Eistnesku stelpurnar hafa samt verið að gera góða hluti í A-landsleikjum sínum á árinu en liðið er búið að spila fjóra landsleiki og vinna þá alla. Liðið hefur ennfremur leikið sex leiki í röð án þess að tapa en síðasta tap liðsins kom á móti Armeníu 7. nóvember á síðasta ári. Allir þessir leikir hafa reyndar verið á móti þjóðum sem eru ekki ofarlega á styrkleikalista FIFA.

Ave Pajo 25 ára framherji hjá toppliði FC Levadia er markahæst hjá Eistum á árinu en hún skoraði fjögur mörk af sex þegar liðið vann sigur á nágrönnum sínum í Litháen og Lettlandi á Eistrasaltsmótinu. Anastassia Morkovkina 28 ára framherji hjá Pärnu, hefur skorað 3 mörk á árinu og hin 18 ára Signy Arna skoraði tvö mörk.

Það gekk hinsvegar mun verr hjá liðinu á Heimsleikum stúdenta í Belgrad í júlí þar sem liðið tapaði mörgum leikjum illa þar á meðal 0-10 á móti Bretlandi, 2-8 á móti Póllandi og 0-9 á móti Rússum. Eistar voru ekki með eldri leikmenn á þessu móti og leikirnir teljast ekki vera fullgildir landsleikir hjá FIFA.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×